Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Við þurfum frumkvæði að nýjum og nauðsynlegum skrefum í utanríkismálum. Í ljósi gjörbreyttra aðstæðna sem Ísland stendur frammi fyrir þarf að taka ákvarðanir sem styrkja stöðu landsins, bæði út frá efnahagssamstarfi en líka út frá varnarsamvinnu. Það hafa önnur ríki gert. Utanríkisráðherra er núna vandi á höndum því að stjórnarsáttmálinn bindur hendur hennar og fyrir vikið er lítið annað gert en að fylgja lágmarksskuldbindingum við bandalagsþjóðir okkar í NATO og ESB. Það er hvergi hægt að sækja fram í ljósi nýrra og breyttra aðstæðna í heimsmálunum. Í varnarmálum höfum við í Viðreisn sagt að við eigum að sýna öflugri samstöðu með bandalagsþjóðunum með því að stórauka þátttöku okkar í borgaralegum störfum sem tengjast verkefnum NATO. Við höfum líka lagt það til að aftur verði hafnar viðræður við Bandaríkin, að taka varnarsamninginn upp þar sem verði örugglega tryggt að hann myndi ná til netárása sem beinast að öryggi landsins og taka líka með í reikninginn árásir hugsanlega á innviði landsins. Þetta er ekki hægt að gera út af mótsögnum innan ríkisstjórnarinnar. Það má eiginlega bara ekki tala um NATO hér innan lands. Út á við styður VG blessunarlega umsóknir Svía og Finna um aðild að NATO. Og í útlöndum styður VG það að NATO verði stækkað. Svo kemur VG hérna heim og talar fyrir því að Ísland segi sig úr NATO. Þetta eru þversagnakenndar aðstæður sem við búum við. Það eru þung pólitísk rök fyrir því að við hefjum nú þegar undirbúning að næsta skref okkar í Evrópusamvinnunni. Við þurfum að eiga sæti við borðið með lýðræðisþjóðunum í Evrópu. Það gildir bæði fyrir NATO og ESB. Þannig styrkjum við pólitíska stöðu landsins og skjótum traustari stoðum undir efnahagslega og viðskiptalega hagsmuni á hverfulum tímum. En það er jafnframt skylda okkar að efla samstarf þjóða sem trúa á lýðræði, frjáls viðskipti og að sömu leikreglur gildi fyrir stórar þjóðir sem smáþjóðir. (Forseti hringir.) Árás á þessi sameiginlegu gildi okkar er árás á öryggi þjóðar. Þessi dýrmætu gildi verðum við að verja alls staðar.