Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslands.

514. mál
[14:42]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Eins og komið hefur fram í umræðunni lagði Ríkisendurskoðun fram níu tillögur til úrbóta í skýrslunni sem við ræðum hér í dag. Sem dæmi má nefna tillögur um hagræðingarmöguleika í rekstri Landhelgisgæslunnar, skýrari og raunhæfari ákvarðanir um verkefni og tækjakost í samræmi við fjárheimildir og svo langtímafjárfestingaráætlun um tækjakost. Tækjakostur Landhelgisgæslunnar hefur verið byggður upp í samræmi við landhelgisgæsluáætlun en frá viðbrögðum Landhelgisgæslunnar er hægt að draga fram að skortur á fjárveitingum til reksturs kemur í veg fyrir að sett öryggis- og þjónustustig náist. Það verður að tryggja öruggan starfsgrundvöll Landhelgisgæslunnar til að gera henni kleift að takast á við sífellt fjölbreyttari verkefni.

Það er þó eitt sem ég vil draga fram í umræðunni sem ekki var fjallað um í nefndaráliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar en kemur þó fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar en það voru kaup á varðskipinu Freyju á árinu 2021. Í mars 2021 tilkynnti þáverandi dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, að ráðist yrði í kaup á varðskipi sem kæmi í stað varðskipsins Týs. Í apríl 2021 fór fram útboð. Starfshópur skipaður fulltrúum dómsmálaráðuneytis, Landhelgisgæslunnar og Ríkiskaupa vann að undirbúningi útboðsins þar sem leitað var eftir notuðu en öflugu skipi. Skipið sem var keypt er um 12 ára gamalt og er sambærilegt við Þór hvað varðar stærð og aðbúnað en býr yfir meiri dráttar- og björgunargetu. Ég leyfi mér að fullyrða að þáverandi dómsmálaráðherra hafi lyft grettistaki en frá því að hugmyndin varð til og þar til nýtt varðskip var bundið við bryggju á Siglufirði liðu átta mánuðir. Sjálf stóð ég á bryggjunni er Freyja kom í heimahöfn. Þá var alvöru norðlenskt blíðviðri; rok og lárétt rigning en samt sem áður var bros á öllum vörum þar á bæ, ekkert minna hjá starfsmönnum Landhelgisgæslunnar en heimamönnum sem tóku glaðir á móti skipinu heim.

Viðbragðsgeta Landhelgisgæslunnar umhverfis landið hefur stórlega verið aukin með Freyju á Siglufirði og Þór í Reykjavík. Landhelgisgæslan hefur nú tvö afar öflug varðskip sérbúin til að sinna löggæslu, leit og björgun á krefjandi hafsvæðum umhverfis Ísland. Til umræðu í skýrslunni er fjölgun í áhöfn til að fjölga úthaldsdögum á sjó til að efla viðbragð en viðbótarkostnaður þess að bæta heilli áhöfn við gæti numið um 320 millj. kr. á ári. Þetta þarf svo sannarlega að taka inn í myndina þegar skilgreint verður með óyggjandi hætti öryggis- og þjónustustig Landhelgisgæslunnar og viðbúnaðargetu hennar mörkuð skýr viðmið.

Nú er verið að vinna að framkvæmdaáætlun um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða en stefnan, eins og við þekkjum, var unnin af þverpólitískum starfshópi og samþykkt á síðasta kjörtímabili. Vinnan við framkvæmdaáætlunina fer fram í sérstökum þemahópum en einn þeirra er leit og björgun, fjarskipti og björgunarklasi. Í fyrra kom einnig út skýrsla starfshóps um efnahagstækifæri á norðurslóðum þar sem fjallað er um tækifæri og áskoranir í öryggismálum.

Þó að ekki hafi verið sérstaklega fjallað um leit og björgun í áliti nefndarinnar eru verkefni Landhelgisgæslunnar tilgreind í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 52/2006 í 12 liðum. Eftirlit, öryggis- og löggæsla á hafinu er þar umfangsmest ásamt leit, björgun og sjúkraflutningum. Eins og segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Upphaflegt hlutverk Landhelgisgæslu Íslands var fyrst og fremst að tryggja yfirráð Íslands yfir fiskveiðiauðlindum þjóðarinnar og standa vörð um efnahagslögsöguna. Í tímans rás hefur áhersla á getu stofnunarinnar til leitar- og björgunarstarfa ásamt sjúkraflutningum, bæði á sjó og landi, orðið ríkari. Eiginleg gæsla með landhelginni og viðvera skipa á fiskimiðum úti fyrir landinu er nú einungis einn þáttur í starfseminni.“

Skýrsla Ríkisendurskoðunar varpar einmitt ljósi á þetta breytta hlutverk sem telja má að verði áfram í stöðugri þróun í ljósi þróunar á öðrum utanaðkomandi þáttum. Mig langar því aðeins að koma inn á þetta lögbundna hlutverk Landhelgisgæslunnar við leit og björgun. Við hljótum að hafa skýrt markmið um að efla viðbragðsgetu okkar á norðurslóðum því samfara aukinni umferð um norðurslóðir og fjölgandi ferðum stórra flutninga- og olíuskipa með austur- og norðausturströndum landsins eykst þörfin á því að hafa öryggisviðbúnað til reiðu á Íslandi. Illa gæti farið ef skemmtiferðaskip lenti í vandræðum innan íslenskrar lögsögu eða annars staðar á norðurslóðum því mannafli og tækjabúnaður er takmarkaður. Þetta hefur vissulega oft komið upp í umræðunni en auk okkar vaxandi þarfar innan íslenskrar lögsögu er aukin alþjóðleg þörf á betra viðbragði á norðurslóðum. Það eru mörg rök fyrir því að slíkur alþjóðlegu björgunarklasi yrði staðsettur á Norðurlandi þar sem norðurheimskautsbaugurinn liggur í gegnum Grímsey sem er nyrsti byggðakjarni Íslands, þar sem þekkingarnetið er byggt upp á Akureyri og miðstöð norðurslóða á Íslandi er þar einnig. Sjúkrahúsið á Akureyri er næsta sjúkrahús fyrir íbúa á austurströnd Grænlands og þjónustar nú þegar íbúa svæðisins. Og já, eins og ég kom inn á áðan er heimahöfn annars varðskips Landhelgisgæslunnar nú á Norðurlandi, á Siglufirði. Því er tími til kominn að umræða um björgunarklasa á Íslandi fari fram og að stjórnvöld finni verkefninu réttan farveg.

Skýrslan sem við ræðum hér í dag er umfangsmikil og margir punktar sem hægt er að draga fram og ræða og auðvitað eru það fjármálin sem varpa kannski skýrasta ljósinu á stöðuna en Landhelgisgæsla Íslands gegnir lykilhlutverki í aðgerðum í þágu almannavarna og björgunarstarfa og hana ber okkur að styðja og efla.