Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslands.

514. mál
[16:00]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Ég vil þakka fyrir þessa skýrslu og áhugaverðu umræðu og þakka flutningsmanni beiðnarinnar, hv. fyrrverandi þingmanni, Smára McCarthy fyrir að hafa hrundið þessari vinnu af stað. Af þessari skýrslu er að sjá að þetta var mikilvæg vinna og það er gott að hún er nú komin hér fyrir þingið til umræðu. Ég vil beina sjónum mínum að tvennu í þessari skýrslu, annars vegar þyrluflugi ráðherra og hins vegar olíukaupum Landhelgisgæslunnar í Færeyjum þrátt fyrir að aðrar athugasemdir Ríkisendurskoðunar í þessari skýrslu séu mjög alvarlegar líka, t.d. varðandi þessa klassík sem við erum að sjá aftur og er í raun orðin næstum því að reglu, að áætlanir sem ríkisstjórnin gefur út standast ekki með nokkru móti þegar kemur að fjármögnun þessara áætlana. Svona var þetta t.d. í geðheilbrigðismálum. Þetta á líka greinilega við í landhelgisáætlun og við sjáum þetta víða í kerfinu að ríkisstjórnin býr til voðalega fallegar áætlanir, t.d. í loftslagsmálum, en svo fylgir ekki viðeigandi fjármagn til þess að fylgja því eftir þannig að í raun eru einu áætlanirnar sem hægt er að taka mark á af hálfu ríkisstjórnarinnar þær sem birtast í fjárlögum. Ég vil bara ítreka þetta vegna þess að það er ekki hægt að taka mark á neinum öðrum áætlunum ef fjármagnið fylgir ekki, sem er því miður allt of algengt og nánast regla með einhverjum undantekningum þó.

En svo ég snúi mér að þeim umfjöllunarefnum sem ég hef boðað, virðulegi forseti. Í fyrsta lagi vil ég fjalla um þyrluflug ráðherra og kannski í aðeins stærra samhengi en hefur verið gert hingað til. Auðvitað byrja ég bara á innganginum um að hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir fær hér alvarlegar athugasemdir frá Ríkisendurskoðun fyrir að hafa notfært sér þyrluflug í einkaerindum með því að hafa fengið far með Gæslunni úr hestaferð með fjölskyldunni á fund í Reykjavík. Ríkisendurskoðun segir um þetta, með leyfi forseta:

„Tæki stofnunarinnar eru öryggisbúnaður sem keyptur er eða leigður sem tæki til löggæslu og björgunarstarfa til hagsbóta fyrir almenning en ekki til einkaerinda.“

Mér finnst mjög áhugavert að Landhelgisgæslan sé ósammála því að það að sækja ráðherra úr hestaferð, skutla henni til Reykjavíkur og skutla henni svo aftur í hestaferð teljist ekki einkaerindi. Ég skil ekki alveg hvernig sú niðurstaða fæst að það séu ekki einkaerindi þó að um ráðherra málaflokksins sé að ræða. Þó að hún sé á leiðinni á mikilvægan fund þá er þetta vissulega einkaerindi. Í kjölfarið á þessu heitir ráðuneytið því og leggur drög fyrir Ríkisendurskoðun um verkferla í kringum nýtingu ráðherra og æðstu ráðamanna á loftförum á skipakosti Landhelgisgæslunnar og leggur til að það mætti, með leyfi forseta:

„... skipta þeim ólögbundnu verkefnum sem stofnunin tekur að sér að sinna innan þess ramma sem æfingaflugtímar leyfa í fimm flokka:

1. Flug vegna forvarnarstarfs, fræðslu og kynningar á björgunartækjum ríkisins.

2. Flug fyrir einkaaðila gegn greiðslu.

3. Flug fyrir einkaaðila án endurgjalds (t.d. góðgerðar- eða sjálfboðaliðasamtök).

4. Flug fyrir dómsmálaráðuneyti (í tengslum við verkefni ráðuneytisins og í krafti stöðu ráðherra sem „æðsta yfirmanns“ Landhelgisgæslunnar).

5. Flug á grundvelli samvinnusamninga við opinbera aðila sem falla ekki undir 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. laga um Landhelgisgæslu Íslands.“

Í svari við þessu, með leyfi forseta, segir og áréttar Ríkisendurskoðun:

„… ferðir ráðherra eða annarra einstaklinga með flugvélum, þyrlum eða skipum sem Landhelgisgæslan hefur til umráða, í einkaerindum, eru alvarlega athugunarverðar. […] Verði settar formlegar viðmiðunarreglur þurfa þær að endurspegla þetta og tryggja að einkanot séu ekki heimil.“

Þetta eru viðbrögð við þeim verklagsreglum sem dómsmálaráðuneytið leggur til:

„Hvað snýr að þeim verklagsreglum sem dómsmálaráðuneyti hefur unnið tekur Ríkisendurskoðun fram að varhugavert er að túlka ákvæði laga um ábyrgð og yfirstjórn ráðherra yfir tilteknum stofnunum á þá leið að viðkomandi ráðherra hafi með því heimild til að nýta eða ráðstafa mannauði, eignum og öðru lausafé stofnunarinnar í þágu embættis síns frá degi til dags svo sem vikið er að í tilvitnuðum drögum að viðmiðunarreglum. Slíkt fær naumast staðist.“

Þetta er nú með því þyngsta sem Ríkisendurskoðun tekur til orða svona almennt og yfirleitt í svona skýrslum. Hún er sem sagt að segja að þetta sé fráleitt.

„Sömuleiðis felst ekki í heimildum forráðamanna Landhelgisgæslunnar að bjóða fólki afnot af tækjakosti til einkanota eða nota til ferðalaga til að sækja fundi svo dæmi sé tekið.“

Þetta er algerlega skýrt.

Þessi skýrsla, virðulegi forseti, birtist á vef Ríkisendurskoðunar 20. febrúar síðastliðinn þó ætla megi auðvitað að ráðherra hafi fengið að sjá þessa skýrslu eitthvað fyrr. En þrátt fyrir þessa skýru leiðsögn Ríkisendurskoðunar ákvað ráðherra að nota þyrlu Landhelgisgæslunnar, að eigin sögn, með leyfi forseta, til þess að láta skutla sér á fundi mánuði síðar. Hvað segir þetta okkur? Þetta segir okkur ýmislegt.

Í fyrsta lagi vil ég setja það í samhengi við ákveðna orðræðu sem hefur verið í gangi hér af hálfu stjórnarliða sem er sú að þegar stjórnarandstaðan óskar eftir rannsóknarnefnd Alþingis vegna þess að hún hafi skýrari og breiðari rannsóknarheimildir heldur en Ríkisendurskoðun þá er verið að saka okkur um að vera að grafa undan trausti til Ríkisendurskoðunar, að við séum að lýsa yfir einhvers konar vantrausti á Ríkisendurskoðun. Því fer nú fjarri. En ef við horfum á þetta dæmi hér þá sjáum við í verki hvaða virðingu ríkisstjórnin ber fyrir tilmælum Ríkisendurskoðunar, hversu mikið mark þau taka á þeim. Hér eru skýrar leiðbeiningar: Ekki gera þetta. Ráðherra segir: Heyrðu, ég ætla bara samt að gera þetta. Hver er það sem er að grafa undan Ríkisendurskoðun? Það er ekki stjórnarandstaðan. Það er hæstv. dómsmálaráðherra, Jón Gunnarsson, að gera.

Ég á bara örfáar sekúndur til að fara yfir olíukaupin í Færeyjum. Ég vil kannski bara koma að niðurstöðu í þeim efnum sem er að dómsmálaráðuneytið hefur í 22 ár leyft Landhelgisgæslunni að sleppa við að borga virðisaukaskatt og ég get ekki lesið annað úr þessu en að það sé bara svona hjáleið til að veita stofnuninni aðeins meiri pening í staðinn fyrir að gera það í gegnum réttan kanal sem eru auðvitað fjárlög ríkisins. Það er heldur ekki ásættanlegt, virðulegi forseti, að hér eigi að komast hjá því að greiða í almenna skattkerfið einfaldlega til að drýgja tekjur, Landhelgisgæslunnar. Bara á þeim árum sem tiltekin eru í þessari skýrslu þá getum við reiknað út að um 50 milljónir hafi sparast við þetta inn í almenna skattkerfið sem auðvitað ætti að vera greitt til Landhelgisgæslunnar í fjárlögum.