Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslands.

514. mál
[16:15]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegi forseti. Ef maður hugsar um Landhelgisgæslunna þá er hún svona sveipuð einhverjum ljóma frá fyrri tíð þegar við horfðum með stjörnur í augum á hetjurnar okkar sem börðust við ofurefli Breta og unnu það stríð. Þannig hefur þessi ímynd Landhelgisgæslunnar verið löngum að við treystum og trúum á að hún sé að sinna sínu hlutverki og hafi til þess burði að gera það sem þarf.

Þessi skýrsla sem nú er komin fram er að mörgu leyti áfellisdómur um þennan rekstur og á hvaða hátt hann hefur verið starfræktur. Mig langar að nefna nokkur atriði eftir því sem tími vinnst til. Þá er kannski fyrst að nefna áætlanagerð sem talað er um í þessari skýrslu og vekur athygli mína sem nýgræðings á þingi að sjá. Í þessari skýrslu er það orðað með þeim hætti að dómsmálaráðuneyti hefur á undanförnum árum fyrirhugað að leggja fram opinberlega Landhelgisgæsluáætlun þar sem skilgreind verði öryggis- og þjónustustig Landhelgisgæslu Íslands og lagt mat á kostnað og fjárfestingarþörf. Það er endalaust verið að búa til fjárhagsáætlanir, fjármálastefnur, fjármálaáætlanir og inn í slíkar áætlanir ætti auðvitað að koma fjárfestingarþörf Landhelgisgæslunnar sem og annarra stofnana sem verið er að fjalla um þegar verið er að útdeila fjármagni sem til skiptanna er og er bara takmarkað fjármagn. Að sjá það að ráðuneyti frá 2018 hafi ekki sinnt skyldum sínum hvað þetta varðar er athyglisvert í mínum huga. Það þarf að taka þetta mál til gagngerrar skoðunar. Að áætlanagerð ráðuneytis sé ekki til staðar nær engri átt.

Að því sögðu þá langar mig að nefna nokkur atriði sem mér finnst skipta máli. Það er þessi staðsetning á bæði þyrlum og skipum, hvar þau eru stödd. Hér hefur verið nefnt að þyrlur varnarliðsins sáu um stærstan hluta af erfiðum verkefnum á sínum tíma þangað til að herinn fór vorið 2006. Þegar maður horfir á kaflann um nýtingu og rekstur loftfara í þessari skýrslu þá þykir mér leitt að sjá að það er eins og staðan sé bara að versna ár frá ári. Við sjáum í skýrslunni að á árinu 2018 voru þrjár þyrlur í 153 daga, tvær þyrlur í 193, 17 daga var bara ein þyrla og tvo daga var engin þyrla. En á árinu 2020 þá eru aldrei neinar þrjár þyrlur. Það eru tvær þyrlur í 171 dag, ein þyrla í 188 og síðan er bara engin þyrla í sjö daga. Og maður spyr hvað gerist ef eitthvað kæmi upp á þegar engin þyrla er til staðar í landinu. Þarna er bara verk að vinna, virðulegur forseti. Það þarf að taka til gagngerrar athugunar að við getum leyft okkur að hafa öryggismál með þeim hætti að það sé engin þyrla til taks í nokkra daga á ári. Það bara gengur ekki upp að mínu mati.

Síðan langar mig að nefna skipin sem við erum nýbúin að fá í hendurnar, varðskipið Freyju, sem sent var norður og hennar heimahöfn verður á Siglufirði. Ég hef upplýsingar um að farið sé að þrengja að Þór í Reykjavík. Á heimasíðu dómsmálaráðuneytisins má lesa að verið sé að skoða kosti hafnaraðstöðu fyrir varðskip utan Reykjavíkur. Freyja er jú fyrir norðan. Síðan fól dómsmálaráðherra hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni að skoða slíkt. Niðurstaðan af því er að það gæti verið álitlegur kostur samkvæmt heimasíðu ráðuneytisins að færa Þór til Njarðvíkur. Það standa yfir miklar breytingar á Njarðvíkurhöfn og síðan er verið að stækka Skipasmíðastöð Njarðvíkur sem gerir það að verkum að það verður vel hægt að taka við Þór í Njarðvíkurhöfn. Í breytingum á aðalskipulagi sem nú er verið að vinna að og hefur verið í umsögn er verið að skoða skipulagsbreytingar sem eru m.a. fólgnar í byggingu þurrkvíar og dýpkunar hafnarinnar, að gerður verði brimvarnargarður og aukin landfylling og síðan viðlegukantur. Slíkur viðlegukantur gæti verið aðstaða fyrir Þór til viðlegu við þegar hann er í landi. Ég held að það gæti verið ásættanleg aðstaða fyrir Þór í Njarðvík þegar fram í sækir. Ég held að við verðum aðeins að herða okkur í að tryggja að Landhelgisgæslan gerir þær áætlanir sem við sem þingmenn þurfum síðan að reyna að koma til móts við.