152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

almenn hegningarlög.

318. mál
[20:13]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held að maður sé búinn að upplifa það nokkrum sinnum að það hafi ekki verið gengið alla leið þegar verið er að vinna frumvörp. Auðvitað er fólki vandi á höndum þegar verið er að reyna að ná utan um þætti sem eiga að vera réttarbót. Þá eru oft og tíðum og einatt einhverjir pollar sem verða eftir.

Mig langar líka að nefna annað. Hv. þingmaður talar um skilgreiningu á því sem getur talist mútur. Hann nefndi m.a. leikhúsferðir, hvort þær gætu talist mútur, minnugur þess þegar forsvarsmenn Bankasýslunnar voru spurðir að því hvort þeir hefðu fengið einhverjar gjafir. Það voru nú ekki erlendir aðilar sem áttu þar í hlut heldur Íslendingar. Þá var svarið eitthvað á þessa leið: Nei, en það var einhver flugeldur í spilinu og síðan eitthvert svona út að borða. Maður spyr. Og það varð engin umræða frekar um það. En maður veltir fyrir sér: Hver eru mörkin þegar við erum að ræða mútur? Hver eru mörkin? Er hægt að segja að ef eitthvað er afhent viðkomandi til að reyna að ná einhverju fram, hversu lítið sem það er, þá erum við að ræða um mútur? Hversu stórar eða litlar gjafirnar eru, ef þær eru til þess ætlaðar að hafa áhrif á viðkomandi, til að ná einhverju fram, er þá hægt að telja slíkt mútur?