152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

almenn hegningarlög.

318. mál
[20:15]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni seinna andsvarið. Í mínum huga, og það er það sem OECD leggur til, þarf þetta að vera alveg á hreinu. Það eru ekki bara mútur gagnvart erlendum aðilum heldur innlendum aðilum líka. Hversu vel t.d. taka siðareglur þingmanna á því? Má ég þiggja rauðvínsflösku eða flugeld? Má ég þiggja að eitthvert fyrirtæki bjóði mér út að borða, bjóði mér í leikhús, bjóði mér á fótboltaleiki, (Gripið fram í: Laxveiði.) laxveiði o.s.frv.? Þetta er alltaf spurning um það hvar við ætlum að setja mörkin og það er svolítið erfitt þegar þau eru ekki skilgreind. Ég held að það sé mikilvægt að við setjum einhverjar reglur í kringum þetta, lærum af þessu, að það þurfi að vera skilgreind mörk.

Ég vann fyrir erlent stórfyrirtæki, Microsoft, fyrir rúmum áratug síðan. Þar féllum við undir svipaða löggjöf sem er í Bandaríkjunum og þar var hún hert á þeim tíma. Það er á svipuðum tíma og verið er að koma með skilgreiningarnar þarna í OECD. Þar var hún hert yfir í það að ég mátti t.d. ekki bjóða opinberum starfsmanni á McDonalds né á eitthvað sem var dýrara. Það eina sem ég mátti gefa þeim var penni. Allt annað þurftu þeir að borga fyrir.