152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

evrópskir áhættufjármagnssjóðir og evrópskir félagslegir framtakssjóðir.

244. mál
[20:17]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langaði einfaldlega að koma hérna upp því þetta er mál sem er mér mjög hugleikið. Mig langaði að lýsa því yfir að ég tel það mjög mikilvægt að við séum að setja þetta regluverk. Þetta kom upphaflega til þingsins fyrr í vetur sem reglugerð frá Evrópusambandinu og ég ræddi einmitt þá um það hvað það er mikilvægt að við setjum regluverk í kringum skilgreininguna á því hvað sé félagslegur framtakssjóður. Og af hverju er það mikilvægt núna? Jú, það er af því að við lifum á tímum þar sem fjárfestingarumhverfið allt og það hvar verið er að fjárfesta er að breytast mikið. Fjárfestar eru farnir að horfa á meira en bara það að fjárfesta í einhverju sem skilar fjárhagslegum hagnaði heldur líka í hagnaði, ef svo er hægt að komast að orði, sem felst í því að við séum að bæta umhverfið eða það samfélag sem við lifum í. Það er sérstaklega athyglisvert að yngsta kynslóð fjárfesta horfir mjög mikið til þessara mála og eitt algengasta starfið sem auglýst er orðið hjá fyrirtækjum og fjárfestingarfyrirtækjum eru störf aðila sem eiga að sjá til þess að þeir valkostir sem fjárfestar eru að fá séu skilgreindir sem umhverfisvænir eða sem samfélagslegar fjárfestingar. Við erum líka að sjá þetta í því að það eru að koma fleiri sjóðir og ég sá bara síðast í morgun tilkynningu um það að hér væri verið að setja á stofn vísifjárfestingarsjóð sem ætlaði að einbeita sér að því að fjárfesta í umhverfisvænum lausnum. En þetta getur gengið lengra heldur en bara það að vera með fjárfestingar í nýsköpun. Það er t.d. þannig að sjóðir sem fólk er að velja að fjárfesta í eru sumir hverjir farnir að passa upp á það að innan þeirra fjárfestinga séu ekki hlutir sem eru tengdir mengandi iðnaði eða olíu. Þá er einmitt gott að hafa regluverk sem skilgreinir það hvað við teljum vera umhverfisvænt, samfélagslega vænt á móti því að vera það ekki. Það er einmitt hluti af því sem kom inn með reglugerðinni frá Evrópusambandinu, að hjálpa okkur að skilgreina þetta. Það hafa reyndar komið fram ábendingar um að þær skilgreiningar séu ekkert alltaf alveg 100% þannig að eitthvað sé umhverfisvænt. Sumir vilja meina að kannski hafi Evrópusambandið verið aðeins of opið gagnvart því að hleypa sumum hlutum þarna inn. En þetta er alla vega fyrsta skrefið og við vonum náttúrlega og treystum á það að ef það eru einhver göt í þeim skilgreiningum þá verði þau löguð sem fyrst. En þetta er mikilvægt mál og það er von mín að við sjáum félagslega framtakssjóði setta á stofn hér á landi sem uppfylli þessar kröfur auk þess að sjóðir sem eru þegar skilgreindir erlendis í Evrópu með þessa skilgreiningu komi hingað og fjárfesti í hlutum hér á landi. Við vorum nú hér í gær, ég og hv. 4. þm. Suðurk., Vilhjálmur Árnason, að ræða mikið um mikilvægi þess að byggja upp hér nýsköpun á sviði loftslagsmála. Ein af forsendunum fyrir því að við getum dregið til okkar fjármagn og nýsköpunarfyrirtæki á því sviði er einmitt að við klárum þetta frumvarp og það regluverk sem þar kemur. Það er því von mín að hv. þingmenn, þegar kemur að afgreiðslu þessa máls í atkvæðagreiðslu, horfi á þetta frumvarp með jákvæðum augum og tryggi ekki bara að hér sé hægt að stunda fjárfestingar heldur að hér sé hægt að stunda fjárfestingar sem eru góðar fyrir umhverfið og samfélagið.