152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

evrópskir áhættufjármagnssjóðir og evrópskir félagslegir framtakssjóðir.

244. mál
[20:28]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég velti fyrir mér: Erum við mögulega að sjá svona fjárfesta á Íslandi? Við getum nefnt sem dæmi lífeyrissjóði, að þeir búi til einhverja undirsjóði sem gætu verið einhvers konar félagslegir sjóður. Manni sýnist að þetta gæti orðið möguleiki fyrir minni fyrirtæki, lítil og meðalstór fyrirtæki, sem eru að vinna að einhverri nýsköpun til hagsbóta fyrir samfélagið og gætu þá haft aðgang að fjármagni í gegnum svona félagslega sjóði. Og svo maður nefni samfélagslega ábyrgð, eins og hv. þingmaður nefnir hér að það er ekki allt fólgið í peningalegum arði. Það getur verið að það sé verið að bæta samfélagið á einhvern hátt með nýsköpun eða uppfinningu sem getur stuðlað að einhverju til hagsbóta fyrir samfélagið sjálft. Ég held að við getum ekki reiknað með því að það mokist hér inn fjármagn frá erlendum aðilum. En munum við sjá einhverja innlenda aðila sýna þessa samfélagslegu ábyrgð og stofna slíka félagslega framtakssjóði sem gætu aukið aðgengi smærri fyrirtækja og nýsköpunarfyrirtækja að fjármagni, þolinmóðu fjármagni, til að vinna að einhverjum verkefnum til hagsbóta fyrir samfélagið?