152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

evrópskir áhættufjármagnssjóðir og evrópskir félagslegir framtakssjóðir.

244. mál
[20:30]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni seinna andsvarið. Já, ég held við séum jafnvel byrjuð að sjá slíka fjárfesta hér á landi. Aðilar eins og Davíð Helgason og það sem hann er að gera í kringum fyrirtæki sem var kynnt fyrir nokkrum vikum síðan undir nafninu Transition Labs. Hann hefur sjálfur verið að fjárfesta í loftslagstengdum verkefnum. Það sem svona reglugerð gerir er að hún hjálpar slíkum fjárfestum að skilgreina betur verkefnin og fá jafnvel fjármagn frá öðrum fjárfestum til að vinna í svona verkefnum. Það að geta skilgreint sjóðina er tiltölulega ný breyting, hefur gerst á undanförnum árum, en það er eldri breyting sem við þurfum kannski að skoða hér á landi hvort þurfi að taka upp. Nú hafa hlutafélög í raun bara eitt markmið. Þau hafa það markmið að skila arði til sinna hluthafa. Ef þau gera eitthvað samfélagslegt þá mætti að vissu leyti segja að þá væru þau að brjóta gegn því hlutverki sínu, sem er að skila fjárhagslegum arði. Það form sem við höfum fyrir hlutafélög og einkahlutafélög í dag er mjög svipað hlutafélögum erlendis. En bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum og fleiri löndum hafa verið skilgreind svokölluð B eða „benefit“-fyrirtæki, samfélagsleg fyrirtæki sem eru þá annað fyrirtækjaform. Þar stendur sérstaklega að fyrirtækin mega skila arði; fjárhagslega, samfélagslega og umhverfislega.