152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

stéttarfélög og vinnudeilur.

272. mál
[21:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Fyrir hönd meiri hluta velferðarnefndar mæli ég fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, er varðar Félagsdóm. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fyrirkomulagi og tilhögun skipunar dómara í Félagsdóm. Breytingarnar eru m.a. lagðar til í því skyni að bregðast við athugasemdum ríkjahóps Evrópuráðsins gegn spillingu, GRECO. Í frumvarpinu er lagt til að ráðherra skipi fimm dómara í Félagsdóm. Þá er lagt til að Hæstiréttur tilnefni þrjá dómara, þar af forseta og varaforseta dómsins, sem skuli allir vera skipaðir ótímabundið. Hæstiréttur tilnefni svo tvo dómara til vara sem báðir skuli skipaðir ótímabundið. Að lokum er lagt til að tveir dómarar og jafn margir til vara skuli tilnefndir af Samtökum atvinnulífsins annars vegar og Alþýðusambandi Íslands hins vegar sem skuli skipaðir til þriggja ára í senn.

Með frumvarpinu er einnig sjálfstæði dómara við Félagsdóm tryggt með beinum hætti en dómarar í Félagsdómi eru sjálfstæðir í dómstörfum sínum og leysa þau af hendi á eigin ábyrgð. Við úrlausn mála fara dómarar við Félagsdóm eingöngu eftir lögum og lúta þar aldrei boðvaldi annarra. Efnislegir dómar Félagsdóms eru endanlegir.

Í frumvarpinu eru einnig gerð frekari hæfisskilyrði til dómara við Félagsdóm en eru samkvæmt gildandi lögum. Gert er ráð fyrir að þeir dómarar sem ráðherra skipar í Félagsdóm samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar skuli vera skipaðir dómarar við Landsrétt eða héraðsdómstól á meðan þeir gegna embætti dómara við Félagsdóm. Þá er lagt til að þeir dómarar sem ráðherra skipar í Félagsdóm samkvæmt tilnefningum Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands skuli uppfylla hæfisskilyrði 2.–6. töluliðar 2. mgr. 29. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016.

Virðulegur forseti. Til einföldunar þá gerir frumvarpið ráð fyrir auknum hæfiskröfum. Það er krafa um að meiri hluti dómara séu skipaðir dómarar við Héraðsdóm eða Landsrétt. Það er ótímabundin skipan þeirra dómara sem tilnefndir eru af Hæstarétti. Formleg skipan dómara er færð í hendur ráðherra. Þá eru ný ákvæði sem stuðla að sjálfstæði dómara með beinum hætti.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir og greint er frá því í nefndaráliti sem liggur frammi. Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill meiri hlutinn árétta nokkur atriði sérstaklega. Meiri hlutinn bendir á að frumvarpið var unnið í miklu samráði við aðila vinnumarkaðarins undir yfirumsjón sérfræðinga í ráðuneytinu. Fyrir nefndinni kom fram gagnrýni á það fyrirkomulag að þrír skipaðir dómarar af fimm skuli koma úr röðum embættisdómara og töldu umsagnaraðilar það útiloka aðra hæfa lögfræðinga til setu í dóminum. Umsagnaraðilar töldu því vænlegra að gera sömu hæfisskilyrði til dómara við Félagsdóm og til dómara við Landsrétt eða héraðsdóm án þess að gera það að skilyrði að dómarar þurfi að koma úr þeirra röðum. Meiri hlutinn bendir á að tveir dómarar við Félagsdóm, annars vegar sá sem Samtök atvinnulífsins tilnefnir og hins vegar sem ASÍ tilnefnir, þurfa ekki að koma úr röðum embættisdómara og þar sé því tækifæri fyrir aðra sérfræðinga til setu í dómnum og telur meiri hlutinn ekki þörf á breytingum á því fyrirkomulagi.

Þá kom fram gagnrýni á það fyrirkomulag að dómara sem tilnefndir verða af Hæstarétti Íslands verði skipaðir ótímabundið en aðrir dómarar einungis til þriggja ára í senn. Töldu umsagnaraðilar að skipunartími allra dómara ætti að vera hinn sami til að vægi allra dómara verði metið hið sama. Meiri hlutinn ítrekar þá miklu samstöðu sem var um frumvarpið í nefnd ráðherra sem skipuð var af aðilum vinnumarkaðarins, þ.e. af þeim aðilum sem leggja ágreining fyrir Félagsdóm, og endurspeglast sú samstaða í umsögnum sem nefndinni bárust. Það var samhljóma niðurstaða að skipan Félagsdóms skyldi vera með framangreindum hætti. Jafnframt hafði meiri hlutinn samráð við dómsmálaráðuneyti sem gerði ekki athugasemdir við fyrirkomulagið.

Meiri hlutinn leggur til minni háttar eða lagatæknilegar breytingar sem þarfnast ekki sérstakrar umfjöllunar.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti velferðarnefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem fram koma.

Undir álitið rita auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Líneik Anna Sævarsdóttir, formaður nefndarinnar, Ásmundur Friðriksson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Guðrún Hafsteinsdóttir, Jódís Skúladóttir, Oddný G. Harðardóttir og Óli Björn Kárason, með fyrirvara.

Virðulegi forseti. Ég tel rétt að árétta að sambönd verkalýðsfélaga og atvinnurekendafélaga reka fyrir hönd meðlima sinna mál fyrir dómnum, félög sem ekki eru meðlimir í sambandinu reka mál sín og meðlima sinna sjálf og félagsbundnir aðilar reka mál sín sjálfir. Við verðum að líta til þess að mikill samhljómur og samstaða er um málið líkt og það stendur núna og verkalýðshreyfingin leggur mikla áherslu á að þetta mál tefjist ekki og verði afgreitt sem allra fyrst. ASÍ leggur mikla áherslu á að þetta verði ekki atriði sem verði til þess að málið tefjist enda mikil sátt um fyrirkomulagið eins og það er lagt fram. Það er mikilvægt að það sé hlustað á óskir hreyfingarinnar í þessu máli og það verði afgreitt hratt en vandað vel til verka og það teljum við í meiri hlutanum að hafi verið gert.