Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

stéttarfélög og vinnudeilur.

272. mál
[23:03]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er greinilegt eftir að hafa hlustað á ræðu þingmannsins og fyrri þingmanna að í þessu máli er alls ekki þannig búið um hnútana að það geti, alla vega í mínum huga, verið í lagi til afgreiðslu. Þetta er náttúrlega mál sem lýtur að dómurum og lögfræðingum og öllu slíku og það ætti að vera miklu vandaðra. Það var minnst hér á Landsréttarmálið áðan og að þingið hefði fengið önnur mál í hausinn, þannig að það er ekki gott að heyra núna á hinu háa Alþingi að svona mikilvægt mál sem þarf að vera vandað og vel úr garði gert sé komið á lokastig umræðunnar. Það kom fram, tók ég eftir, í ræðu þingmannsins að hv. þm. Óli Björn Kárason hefði verið með fyrirvara á málinu, um jafnræði eða eitthvað slíkt. Hann er nú stjórnarþingmaður þannig að maður hefði haldið að ríkisstjórnin hefði verið búin að koma sér saman um að þetta mál færi út úr nefnd í fullri sátt við alla stjórnarþingmenn að lágmarki. Það er mjög athyglisvert. Ég er kannski ekki með neina beina spurningu í seinna andsvari en þakka þingmanninum enn og aftur fyrir góða ræðu og vona að þetta mál verði tekið til frekari umfjöllunar. Ég veit ekki hvort það hefur verið kallað aftur til nefndar en vona alla vega að það verði vandað til verka áður en það kemur til atkvæðagreiðslu.