152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

stéttarfélög og vinnudeilur.

272. mál
[23:11]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sitt andsvar. Það er auðvitað flókið að standa hér og fullyrða að þetta sé eitthvert algjört klúður. Það er flókið að fullyrða að við verðum rekin aftur til baka með þetta af GRECO í fyrsta lagi og líka auðvitað af Mannréttindadómstóli Evrópu. Í Landsréttarmálinu t.d. var aðeins farið ofan í saumana á því hvort það væri búið að laga hlutina þar þegar málin voru rekin ytra í Strassborg. þ.e. er búið að skipa dómara upp á nýtt, er búið að laga það sem aflaga fór o.s.frv., af því það var lykilatriði t.d. í ákveðnu máli sem var fjallað um þarna í Strassborg sem varðaði skipan dómara í Noregi. Þar hafði skipan dómarans verið andstæð lögum en það var búið að lagfæra það áður en það var komið á leiðarenda, áður en það var tekið fyrir í dómstólnum í Strassborg þannig að þeir sögðu: Já, það voru gerð mistök en við þurfum ekki að bregðast við með áfellisdómi vegna þess að þið brugðust við þegar í ljós kom að þetta var ekki í lagi. Sú var hins vegar ekki raunin á Íslandi í Landsréttarmálinu þar sem íslenska ríkið þráaðist við í sínu þrjóskukasti og barðist til síðasta blóðdropa fyrir sinni sannfæringu.

Það var nefnt hérna áðan hvort nefndin ætti að taka þetta inn milli 2. og 3. umr. Ég veit ekki hvort það geri neitt gagn ef nefndin er svona staðföst í því að hafa þetta svona. Það er búið að benda á þetta. GRECO er búið að benda á þetta og umsagnaraðilar eru búnir að benda á þetta en þau gera þetta samt svona þannig að ég veit það ekki.