Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 82. fundur,  20. mars 2023.

staða ríkisfjármála.

[15:30]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra reynir oft að drepa málum á dreif og forðast að svara spurningunum, en ég held ég hafi aldrei heyrt jafn lélegt svar frá hæstv. forsætisráðherra og nú. Svarið var einhvern veginn svona: Við þurfum að eyða svo svakalega miklum peningum. Við þurfum að slá öll met í útgjöldum af því að þið rákuð ríkið ekki með nógu miklum halla og komuð skikki á ríkisfjármálin á sínum tíma — og reyndar náðum að umsnúa íslensku efnahagslífi á þann hátt að þessi ríkisstjórn hefur getað lifað af með endalausri útgjaldaaukningu fram að þessu. En nú er það farið að birtast í aukinni verðbólgu. Hæstv. ráðherra segist ekki ætla í beinan niðurskurð og í staðinn eigi að einfalda stjórnkerfið. Er þetta eitthvert grín frá (Gripið fram í.)hæstv. forsætisráðherra, í ríkisstjórn sem hefur slegið öll met í að stækka báknið?

En ég vil spyrja einnar tiltekinnar spurningar og vonast eftir svari nú: Hefur hæstv. ráðherra, sem hann hlýtur að hafa gert sem formaður efnahagsráðs ríkisstjórnarinnar, lagt mat á eða beðið um mat á því hversu miklu lífeyrissjóðirnir eru búnir að tapa á ríkisskuldabréfum (Forseti hringir.) á síðustu misserum vegna þeirrar vaxtahækkunar sem er afleiðing af útgjaldaaukningu ríkisstjórnarinnar? (Forseti hringir.) Þetta mun geta numið hundruðum milljarða króna, herra forseti, og er afleiðing af stefnu þessarar ríkisstjórnar. Hefur yfir höfuð verið reynt að leggja mat á þetta?