131. löggjafarþing — 82. fundur,  2. mars 2005.

Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

191. mál
[16:04]

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér á eftir verða greidd atkvæði um breytingartillögu frá formanni allsherjarnefndar við breytingu sem öll nefndin var sammála um að gera á frumvarpinu og þingheimur samþykkti fyrir örfáum dögum. Þá vildi öll allsherjarnefndin fara varlega og setja inn sérstakan texta um að íslensk þýðing á EES væri ætíð tryggð. Á milli 2. og 3. umr. hvarf hins vegar þessi varúðartilfinning meiri hluta allsherjarnefndar og nú á að greiða atkvæði um nýja breytingartillögu meiri hlutans sem lýtur að því að opna möguleika á að þýða ekki EES-gerðir á íslensku þrátt fyrir skýrt orðalag laga um að EES-gerðir skuli þýða.

Meiri hlutinn hefur vísað í hagræði máli sínu til stuðnings en ekki getað svarað því af hverju þeir telja sig geta gert þetta þrátt fyrir skýrt orðalag um þýðingarskyldu í EES-samningnum sem er, nota bene, gild lög hér á landi.

Hér er því stjórnarmeirihlutinn kominn á hálan ís. Þingmenn Samfylkingarinnar munu hafna þessari breytingartillögu og greiða atkvæði gegn henni. Í frumvarpinu má hins vegar finna heimild til rafrænnar birtingar á lögum sem við teljum jákvæða en þar sem breytingartillaga meiri hlutans við breytingartillögu nefndarinnar er vafasöm, svo að ekki sé meira sagt, munu þingmenn Samfylkingarinnar sitja hjá við frumvarpið í heild sinni og við gildistökuákvæði í breytingartillögunni.