132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[10:49]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég heyri að hæstv. forseti hefur fengið nóg af ræðu síðasta hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem talaði alls ekki um fundarstjórn forseta. Það var alveg hárrétt hjá forseta að koma með þá áherslu.

Ég ætla að tala um fundarstjórn forseta. Ég ætla að benda og minna hæstv. forseta á að samkvæmt starfsáætlun þingsins fyrir árin 2005–2006 var ekki gert ráð fyrir þingfundi á þessum degi. Sömuleiðis var í dagskrá þingsins sem var sett á mánudag var ekki heldur gert ráð fyrir fundi á þessum föstudegi.

Þótt sumir þingmenn eins og hv. þm. Drífa Hjartardóttir haldi að það sé ekkert að gera nema þegar hún er stödd í þinginu, og þá held ég að hún geri nú ekki mikið, a.m.k. ekki á köflum, þá eru störf þingmanna margvíslegri en bara sitja hér og taka þátt í umræðum sem ég geri að sjálfsögðu. Ég sá einmitt góða mynd í Morgunblaðinu í gær sem sýndi hver sat við og fylgdist með þingfundum, frú forseti.

Ég hef líka öðrum skyldum að gegna og er þingmaður utan af landi og ég skipulegg líka ferðir mínar, fundi og þátttöku í samfélagslífinu þar. Fólk heldur að þetta snúist allt um Reykjavík en það er ekki svo. Ég var búinn að skipuleggja þennan dag í annað, í þágu starfs míns sem þingmaður — og hv. þm. Magnús Stefánsson kannski líka sem labbaði hér fyrir. Það fara að verða afar ríkar ástæður til að forseti breyti dagskrá þingsins því að (Gripið fram í: Náttúruvá.) náttúruvá, grípur hv. þingmaður fram í. Já, ég held að hæstv. iðnaðarráðherra sé mesta náttúruvá landsins því hingað kemur inn hvert frumvarpið á fætur öðru um einkavæðingu á öllum náttúruauðlindum, um rétt ráðherra til að ráðast í að virkja jökulvötn vítt og breitt um landið og hér er frumvarp um einkavæðingu á vatni sem iðnaðarráðherra rekur á eftir og auðlindin er vatn. Auðvitað er þetta náttúruvá.

En aftur að fundarstjórn forseta. Ég tel, þó að iðnaðarráðherra sé þessi náttúruvá, samt ekki tilefni til að forseti láti undan og keyri áfram umræður á föstudegi, degi sem alls ekki hafði verið ætlaður undir þetta mál og ekkert sem ætti að hindra að það gæti ekki verið rætt mjög ítarlega eftir helgi eins og dagskrá þingsins segir til um.