132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[11:06]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að í gegnum tíðina hafi landsmenn ekki gert sér rellu út af því að menn hafi þurft að bjarga verðmætum, og einkanlega á vertíðum voru menn tilbúnir að leggja á sig hvaða vinnu sem var til þess að bjarga verðmætum ef til að mynda landburður var af fiski. Maður veltir fyrir sér í þessari umræðu hvers vegna hér sé verið að setja á vertíð í að bjarga þessu frumvarpi. Hver eru þau verðmæti sem liggja undir skemmdum? Hver er hættan? Hvað er það sem gerir það að verkum að það þarf að breyta áætlunum, jafnvel setja fundi um helgar til þess að keyra þetta mál áfram? Hvaða verðmæti liggja undir skemmdum?

Þetta verður enn undarlegra, virðulegi forseti, þegar haft er í huga að hæstv. iðnaðarráðherra lýsti því yfir hér áðan að þetta væri engin efnisbreyting, þetta væri ekki neitt neitt. Hvers vegna er þá verið að setja allt þingið til verka úr öllum takti við þær áætlanir sem settar hafa verið eða jafnvel um helgar, kvöldin og á næturnar, ég tala nú ekki um í ljósi þess að núverandi forusta þingsins hefur lýst því yfir að afar mikilvægt sé að breyta vinnubrögðum í þinginu og samræma þau venjulegu fjölskyldufólki?

Mér finnst einhvern veginn vanta svarið við þessari spurningu: Hver eru þau verðmæti sem verið er að takast á um og verið að reyna að bjarga? Hvað er það sem rekur okkur svona áfram? Við þessari spurningu verður að fást svar áður en við leggjum í þessa kvöld- og helgarvinnu. Ef svörin liggja fyrir er nauðsynlegt að þau komi fram.

Ég get heldur ekki orða bundist, virðulegi forseti, vegna orða sem hér hafa fallið um m.a. niðurstöðu alþingiskosninga 2003 og að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar verði að sætta sig við þá niðurstöðu. Væntanlega felst það í þessum orðum að þingmenn stjórnarandstöðunnar skuli taka öllu því sem frá ríkisstjórninni kemur og vera þá ekki að gera miklar athugasemdir við það. Hafi einhver athugasemdir skulu þær vera í lágmarki, a.m.k. skal þeim ekki haldið svo hátt að hætta sé á að störf þingsins teygist eitthvað á langinn vegna þeirra. Ef þetta eru lýðræðishugmyndir meiri hlutans stafar vá að hinu háa Alþingi, þá er ógn sem að okkur steðjar. Þetta eru hugmyndir sem eru að minni hyggju hættulegar.

Það er afar mikilvægt að stjórnarandstaðan og minni hlutinn á hverjum tíma komi sjónarmiðum sínum á framfæri, og meiri hlutinn (Forseti hringir.) á ekki að skammta minni hlutanum tíma til þess að koma þeim á framfæri.