132. löggjafarþing — 82. fundur,  10. mars 2006.

Frumvarp um vatnatilskipun ESB.

[11:13]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram hefur komið hjá hæstv. forseta að forseti hefur gert þingflokksformönnum tilboð varðandi það hvernig staðið er að þessari umræðu. Hæstv. forseti leitaði eftir því við þingflokksformenn að þessari umræðu gæti hugsanlega lokið á mánudegi eða þriðjudegi, þ.e. 2. umr. um málið. 3. umr. er öll eftir.

Það eru 15 manns á mælendaskrá. Af þeirri forsendu einni saman varð ekki séð að hægt væri, miðað við að farið væri að starfsáætlun Alþingis, ekki þingfundir í dag eða á morgun, að segja það fyrir fram að hér lyki umræðu á þriðjudegi. Þingflokksformenn taka að sjálfsögðu tillit til þess hversu margir hv. þingmenn úr þingflokkunum eiga hér eftir að tala, flytja mál sitt, en eru ekki að skerða þá lýðræðisreglu sem felst í þingsköpunum, að hér sé ótakmarkaður ræðutími. Sem betur fer kveða þingsköp skýrt á um þær vinnureglur sem við eigum að fara eftir.

Hæstv. ráðherrar hafa heldur ekki verið viðstaddir umræðuna. Hér hafa komið fram spurningar sem bíða svara frá hæstv. ráðherrum. Við höfum farið fram á það að hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. umhverfisráðherra séu á staðnum. Nú í morgun hafa komið fram spurningar sem enn er ósvarað. Ég hlýt, hæstv. forseti, að beina því til forseta að hún beiti sér fyrir því að hér mæti hæstv. umhverfisráðherra í salinn og svari spurningum hv. þingmanna. Það fellur undir fundarstjórn hæstv. forseta, þ.e. að sjá til þess að hv. þingmenn fái svör.

Mér er kunnugt um að hæstv. iðnaðarráðherra getur ekki verið hér í dag, hefur boðað lögmæt forföll og mun ekki … (Gripið fram í: … einn í einu.) Hæstv. iðnaðarráðherra getur ekki af eðlilegum orsökum verið hér í dag og hefur farið fram á að það sé virt. Ég tel það eðlilegt. En við höfum farið fram á að hún verði við umræðuna og þess vegna er ríkari ástæða til þess að umræðunni verði frestað fram á mánudag þar til hæstv. ráðherra getur verið með okkur.

Það kom líka fram hjá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, sem er formaður iðnaðarnefndar, að hann hvatti þingmenn til að fara á málþing sem er uppi í háskóla núna í hádeginu um vatnalögin þar sem löglært fólk á m.a. að fjalla um þetta frumvarp og þau lög sem í gildi eru. Ég tek eindregið undir þá ósk hv. þingmanns að þingmenn fari á þetta málþing, það er innlegg í málið. Ég fer því fram á það við hæstv. forseta og hef til þess örugglega stuðning formanns iðnaðarnefndar að þinghaldi verði frestað á meðan málþingið stendur yfir.