136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

ástæða Breta fyrir að beita hryðjuverkalögum á Ísland.

[14:23]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mikilvæga mál upp. Það var mikið spurningaflóð sem dembt var yfir hæstv. vesalings utanríkisráðherra og ég mun reyna að svara þeim öllum. Ég vil samt segja eins og ég hef margoft sagt áður að ekki er hægt að finna nokkurt hjá íslenskum ráðamönnum, þ.e. fyrri ríkisstjórn eða núverandi ríkisstjórn, sem gefur nokkurt tilefni til þessarar framkomu bresku ríkisstjórnarinnar. Það er ekkert sem réttlætir það eða afsakar það að þeir hafi með þessum hætti beitt hermdarverkalögunum gegn fornri vinaþjóð. Og ég verð að segja að mér finnst sem hið sögulega minni Breta hafi ekki verið sterkt þegar þeir gerðu það. Við erum gömul vinaþjóð sem á sínum tíma opnuðum okkar land fyrir þeim á stund þeirra stærstu neyðar, þ.e. í baráttunni um Bretland árið 1940. Það var líka kynslóð afa okkar hv. þingmanns sem á sínum tíma hætti lífi sínu til að færa þeim mat þegar þá skorti fisk. Það er rétt að það komi hér fram að Íslendingar misstu að tiltölu í seinni heimsstyrjöldinni jafnmarga og Bandaríkjamenn í stríðinu. Þetta finnst mér þurfa að koma fram vegna þess að þeir hafa farið með svo óafsakanlegum og óverjandi hætti gagnvart okkur.

Hv. þingmaður spyr hvort það hafi verið misvísandi skilaboð frá íslenskum ráðamönnum sem kunni að hafa leitt til þeirrar staðreyndar að þeir beittu hermdarverkalögunum gegn okkur. Ég tel að svo sé ekki. Ég tel ekki að það hafi verið neinar yfirlýsingar af hálfu íslenskra ráðherra sem leiddu til þessa. Og ég tel ekki að það hafi verið misvísandi yfirlýsingar millum íslenskra ráðherra á þeim tíma.

Ég vísa til þess að fyrrverandi fjármálaráðherra Árni Mathiesen átti vel þekkt samtal við Alistair Darling á sínum tíma. Það samtal hefur verið birt og í því samtali kemur ekkert fram sem gefur tilefni til þess sem Alistair Darling sagði í frægu viðtali að morgni 8. október þegar hann sagði að íslenska ríkisstjórnin hefði sagt bresku ríkisstjórninni að hún hygðist ekki standa við skuldbindingar sínar. Þvert á móti kom það ítrekað fram í samtali þáverandi fjármálaráðherra að hann vísaði til bréfs frá 5. október þar sem íslenska ríkisstjórnin sagði það alveg svart á hvítu að hún mundi standa við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem hún hefði veitt. Á þessum tíma var því ekkert sem gaf tilefni til þessa.

Hins vegar er rétt að rifja það upp að annar íslenskur ráðamaður sem ekki situr í ríkisstjórninni, þ.e. seðlabankastjóri, var líka í margfrægu viðtali við sjónvarpsþáttinn Kastljós kvöldið áður þar sem hann í reynd sagði að Ísland hygðist skipta um kennitölu og ekki standa við skuldbindingar sínar. Það er hugsanlegt að hér sé um að ræða þá misvísun sem hv. þingmaður vísar til. Sömuleiðis, þegar hv. þingmaður spyr um það hvort íslensk stjórnvöld sitji á upplýsingum eða hafi ekki látið allar upplýsingar koma fram, þá segi ég það að eftir því sem ég veit best er engar slíkar upplýsingar að finna í neinu ráðuneytanna. Hins vegar er það svo, eins og hv. þingmaður sagði áðan, að seðlabankastjóri flutti líka ræðu á þingi Viðskiptaráðs 18. október þar sem hann sagðist búa yfir upplýsingum úr samtölum sem hefðu átt sér stað sem mundu skýra málið. Þetta tel ég að hafi verið ákaflega gáleysisleg ummæli og þau hafi verið til þess fallin að skaða verulega málstað Íslendinga t.d. varðandi málsóknir.

Ég vek líka eftirtekt hv. þingmanns á því að í Financial Times á sínum tíma voru þessi ummæli seðlabankastjóra túlkuð með nákvæmlega sama hætti og ég er að túlka, þ.e. í Financial Times voru þessi ummæli lögð út með þeim hætti að í þeim fælist viðurkenning og eins og þeir sögðu, fyrsta viðurkenningin á því af hálfu íslensks stjórnvalds að Íslendingar bæru með einhverjum hætti ábyrgð á þessu.

Á ríkisstjórnarfundi í morgun var Icesave-málið rætt og meðal annars framvinda þess og á næstu dögum verður kynnt formleg samninganefnd Icesave-málsins af okkar hálfu og hver mun leiða hana, vonandi fyrir vikulokin. Það hafa ekki farið fram miklar viðræður í þessu máli síðustu vikur, hvorki af hálfu síðustu ríkisstjórnar á þessu ári né heldur þeirrar sem núna situr. Við í núverandi ríkisstjórn hyggjumst hins vegar gera gangskör að því að ná þessu máli saman með þeim hætti sem viðunandi er

Hv. þingmaður spyr mig jafnframt um það hvort mér sé kunnugt um það að núverandi forsætisráðherra hafi átt samtöl við breska forsætisráðherrann. Ég held að svo sé ekki, mér er ekki kunnugt um það. Við íslenskir ráðherrar höfum hins vegar á síðustu vikum átt viðræður við sendiherra þessara þjóða og lagt drög að viðræðum um þetta mál.