136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[15:32]
Horfa

Jón Magnússon (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna ummæla hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur þar sem hún talaði m.a. um að stjórnarskrá lýðveldisins væri úrelt. Er það svo? Standast grundvallaratriði stjórnarskrárinnar ekki í meginatriðum? Þegar órói og upplausn er í þjóðfélagi er þá brýnt að grípa til og breyta grundvallarreglum og lögum þess? Eru einhverjar líkur til þess, miðað við það að stjórnlagaþing sem þarf tvo þriðju meiri hluta til að hlutir nái samþykki, að almenn viðhorf til stjórnlaga verði tekin úr sambandi þegar slíkt stjórnlagaþing kemur að?

Er ekki meginatriðið að sinna þarf ákveðnum atriðum varðandi það að auka lýðræði í samfélaginu, koma á þjóðaratkvæðagreiðslu og skilja betur á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, en ekki sérstaklega önnur ákvæði í stjórnarskránni?