136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[17:07]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef reynt að fylgjast með umræðunni hér í dag um þetta frumvarp um stjórnlagaþing og vil leggja orð í belg vegna þessa mikilvæga máls sem snýst í grunninn um breytingar á stjórnarskránni og þörfina fyrir þær.

Í mínum huga fjallar þetta mál fyrst og fremst um form, um það hvernig við eigum að standa að því að breyta stjórnarskrá. Það er út frá því gengið í þessu máli að það fyrirkomulag sem við höfum hingað til haft og höfum starfað eftir, til að mynda á síðasta kjörtímabili, sé úr sér gengið og gangi ekki lengur. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér finnst menn hafa verið býsna snöggir að komast að niðurstöðu og ekki nóg með það heldur líka að lausn á því hvernig höggva ætti á þennan hnút.

Það liggur fyrir að stjórnarskrárnefndin sem starfaði undir forustu framsóknarmanna á síðasta kjörtímabili, Jóns Kristjánssonar, hafði opnað þetta mál upp á gátt. Allir stjórnmálaflokkar voru sammála um að það þyrfti að nálgast endurskoðun á stjórnarskránni með hana meira eða minna alla undir þó að auðvitað væru nýjustu kaflarnir, til að mynda mannréttindakafli stjórnarskrárinnar, að sínu leyti undanskildir og þörfin fyrir breytingar á þeim ekki eins áríðandi og tiltektin sem menn hafa svo lengi talað um og vísað hefur verið til í umræðunni í dag. Það er auðvitað ýmislegt sem má betur fara í stjórnarskránni, margt þarf að skýra og það þarf að eiga sér stað ákveðin tiltekt, en ég er þeirrar skoðunar að menn hafi gert allt of mikið með það í umræðunni undanfarna daga og vikur og í umræðunum um þetta tiltekna mál að hér sé þörf fyrir nýja stjórnarskrá frá grunni, allt of mikið úr þessu gert. Þrátt fyrir að innbyrðissamhengi í stjórnarskránni sé að sumu leyti óskýrt og það megi segja að sumt nánast stangist á og það komi af og til upp óheppileg tilvik þar sem menn greinir á um það nákvæmlega hvernig eigi að túlka stjórnarskrána eigum við í grundvallaratriðum ekki í neinum ágreiningi um það fyrir hvað stjórnarskráin stendur eða á hvaða stjórnskipan við byggjum hér á þessu landi.

Ég kannast heldur ekki við umræðu um það að það þurfi í grundvallaratriðum að kollvarpa því stjórnarfari eða þeim stjórnarskipunarreglum sem við hyggjumst beita hér í framtíðinni. Þess vegna segi ég að þetta frumvarp fjalli fyrst og fremst bara um formið. Við skulum skoða aðeins hvað hefur verið að gerast varðandi þær breytingar sem hafa verið í umræðunni.

Á síðasta kjörtímabili, eins og ég vék að, starfaði stjórnarskrárnefndin mjög opið, opnaði vefsíðu og fékk til sín fjölmargar hugmyndir og tillögur að breytingum á einstökum köflum stjórnarskrárinnar. Ég verð að segja að heilt yfir gekk það starf ágætlega. Það hefði mátt vera meiri kraftur í því á köflum en heilt yfir og sérstaklega þegar horft er til þess hversu mikið var undir gekk það starf ágætlega. Það starf hefur ekki verið virkt á þessu kjörtímabili en eins og fram hefur komið, m.a. frá Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, stóð til að endurvekja þetta starf á síðari hluta þess kjörtímabils sem við erum núna að fara að ljúka. Þannig hefði nefndin farið af fullum krafti í þetta starf að nýju, byggt á þeirri vinnu sem þegar hafði verið unnin og þeim ábendingum sem nefndinni hefðu borist. Ég segi bara fullum fetum að það er engin ástæða til að ætla annað en að stjórnmálaflokkarnir í landinu hefðu getað komið sér saman um veigamiklar breytingar á stjórnarskránni sem koma til móts við þær kröfur um tiltekt og skýringar sem hér hafa helst verið í umræðunni, það er engin ástæða til að ætla annað.

Enda hefur það líka verið tilfellið hingað til. Þannig var það 1984 þegar kosningafyrirkomulaginu var breytt, þannig var það 1991 þegar deildaskipting Alþingis var afnumin, þannig var það 1995 þegar mannréttindakafli stjórnarskrárinnar var endurskrifaður og þannig var það þegar við breyttum kjördæmaskipaninni árið 1999. Þá komu allir stjórnmálaflokkarnir sameiginlega að því máli og leiddu þessi viðfangsefni. Þeir gerðu það og þetta eru veigamiklar breytingar. Ég hygg að það hafi komið fram í umræðunni í dag að við höfum breytt okkar stjórnarskrá til að mynda miklu meira og örar en Danir hafa gert síðustu 50–60 árin. Með vísan í þetta er auðvitað rangt sem er látið liggja að hér í umræðunni að stjórnmálaflokkarnir á Íslandi geti ekki komið sér saman um nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni. Dæmin eru til vitnis um annað.

Þess utan vil ég gera við það alvarlegar athugasemdir að þegar við förum í svona stórt mál eins og við ræðum hér, að endurskrifa stjórnarskrána frá grunni, skuli ekki einu sinni vera gerð tilraun til að koma stjórnmálaflokkunum saman um aðferðafræðina í því efni. Það er ekki einu sinni gerð tilraun til þess. Ég hygg að við vitum öll og það blasir við sérhverjum sem hefur fylgst með þessum málum, og það kom reyndar fram í framsögu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur hér fyrr í dag, að þetta mál á uppruna sinn hjá Framsóknarflokknum. (BJJ: Gott mál.) (Gripið fram í.) Þetta mál ratar inn á þingið núna vegna þess að Framsóknarflokkurinn gat sett það sem skilyrði fyrir stuðningi sínum við ríkisstjórnarflokkana tvo. (Gripið fram í.) Það er þannig sem þetta mál er til komið og það er þess vegna sem við erum að ræða það hérna í dag.

Þetta mál er ekki borið upp af ríkisstjórninni, þetta mál er ekki borið upp af þeim flokkum sem skipa bekkinn hérna, ráðherrasætin. (Gripið fram í: Besti flokkurinn.) (Gripið fram í: Og?) Þetta mál stafar frá einum stjórnmálaflokki og er að þessu leytinu til í grundvallaratriðum frábrugðið þegar við horfum til þess hvaða nálgun menn hafa hingað til haft við breytingar á stjórnarskránni. (Gripið fram í.) Við hljótum að gera athugasemdir við það. (Gripið fram í: Af hverju?) Við hljótum að gera athugasemdir við það að nú skuli horfið frá þeirri áratugagömlu venju að menn leiti samráðs allra stjórnmálaflokka við breytingar á stjórnarskránni eða aðferðir við breytingar á henni. (Gripið fram í.)

Við vitum t.d. ekki í þessari umræðu hérna hvort þessi ríkisstjórn, með stuðningi Framsóknar væntanlega, hyggst tefla fram hugmynd sem þó hafði tekist samkomulag um í stjórnarskrárnefndinni um aðferðafræðina við að breyta stjórnarskránni. Ég held að þegar við skoðum málið ofan í kjölinn og ræðum það sem þetta mál snýst um í raun, sem er sem sagt formið, sé það vegna þess hvaða reglur gilda um breytingar á stjórnarskránni, að formið og aðdragandinn að slíkum breytingum sé svo gallað að við séum föst í einhverjum hjólförum. Ég held að menn hafi sitthvað til síns máls í því efni. Það hefur sýnt sig að á fyrri hluta kjörtímabila hefur enginn kraftur verið í endurskoðun stjórnarskrárákvæða. Menn vita að slíkar breytingar munu alltaf þurfa að bíða þar til undir lok kjörtímabilsins og þá fyrst ríður á að þær verði afgreiddar. Kannski er dæmið sem ég vísaði til hérna áðan, að forsætisráðherrann fyrrverandi hugðist nota síðari hluta þessa kjörtímabils, besta dæmið um að þetta hefur farið í þennan farveg.

Þess vegna held ég að það hafi verið skynsamlegt og ég held að í því máli sem við erum hérna að ræða sé það reyndar skynsamlegasta leiðin, að miklu frekar en að efna til stjórnlagaþings — maður hlýtur að spyrja sig hvort það sé líklegra til að komast að einhverri niðurstöðu um þetta efni en þeir 63 sem eru kosnir til þessa þings hér vegna þess að ágreiningsefnin verða auðvitað nákvæmlega þau sömu og álitaefnin sömuleiðis. Hvers vegna ætti að vera eitthvað líklegra að þeir 63 einstaklingar ættu að komast að niðurstöðu um stór álitamál, eins og til að mynda hvort breyta ætti 26. gr., hvort hlutverk forseta Íslands eigi að taka til einhverrar endurskoðunar, með hvaða hætti ætti að fjalla um Hæstarétt í stjórnarskránni eða hvort við ættum að taka þingræðisregluna til endurskoðunar eða orða hana með öðrum hætti í stjórnarskránni? Hvar eru rökin fyrir því að nýtt stjórnlagaþing sé eitthvað líklegra en við hér, löggjafarsamkundan, til að komast að niðurstöðu um þessi atriði? (BJJ: Vertu jákvæður.)

Þess vegna held ég að við ættum miklu frekar en að ræða þörf — sem ég sé ekki að sé til staðar — til þess að endurskrifa stjórnarskrána frá grunni að ræða tillögu stjórnarskrárnefndarinnar um það hvernig við berum okkur að. Ef við mundum afgreiða þá tillögu og opna sem sagt fyrir möguleika fyrir þingið til að gera breytingar á stjórnarskránni án þess að boða þyrfti til kosninga í kjölfarið tökum við þetta meginatriði sem hefur kannski staðið í vegi fyrir breytingum hingað til og kraftmikilli umræðu fyrri hluta kjörtímabils um breytingar á stjórnarskránni úr sambandi. Ég held að það færi betur á því að menn mundu setja þetta mál dálítið í samhengi við þá tillögu. Hún nefnilega stafar frá fulltrúum allra flokka sem eiga sæti á þinginu. Hún er ekki beint gömul, þessi tillaga.

Hvenær fæddist þessi tillaga? Hún fæddist í aðdraganda kosninganna þegar menn horfðu fram á það að þrátt fyrir þá vinnu sem var búið að leggja í og allar þær ábendingar sem borist höfðu stjórnarskrárnefndinni náðu menn ekki að klára verkefnið. Þó að í sjálfu sér megi gera við það athugasemdir og harma það — ég tók sæti í þessari nefnd eftir að breytingar urðu á mannaskipan þar — var það fyrir mitt leyti ekki neitt stórtjón. Breytingar á stjórnarskránni eru í mínum huga ekki jafnáríðandi og sumir vilja meina sem tekið hafa þátt í umræðunni hér. Við eigum samt að halda okkar striki og það verður að halda þessari vinnu áfram. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að það eru ákveðin vonbrigði að við skyldum láta málið falla í þann farveg að starfið hefur ekki verið virkt síðustu u.þ.b. tvö árin.

Þegar menn sem sagt áttuðu sig á því fyrir síðustu kosningar að ekki mundi takast samkomulag um veigamiklar breytingar á stjórnarskránni tefldu menn fram þeirri hugmynd að við skyldum breyta fyrirkomulaginu við breytingar á stjórnarskránni. Ég held að það hafi verið skynsamlegt og við ættum miklu frekar að ræða hana hér en við vitum ekki einu sinni hvort þær breytingar sem ríkisstjórnin hefur kynnt að verði gerðar á stjórnarskránni muni byggja á þeirri tillögu eða ekki. Við erum hér með fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu þar sem fram kemur að ráðgjafarhópur ríkisstjórnarinnar sé að vinna að tillögum um breytingar á stjórnarskránni og það er hálfeinkennilegt að þeim ráðgjafarhópi er m.a. ætlað að móta tillögur um bráðabirgðaákvæði í stjórnarskránni vegna stjórnlagaþings. Þetta er nú öll samstaðan og samráðið sem er á milli Framsóknar og ríkisstjórnarinnar í þessu efni. Við eigum sem sagt von á öðru frumvarpi um nákvæmlega sama málið frá ráðgjafarhópi ríkisstjórnarinnar, nákvæmlega þetta mál sem við erum að ræða hérna í dag. Það verður ekki annað skilið af fréttatilkynningu forsætisráðuneytisins en að við eigum von á nákvæmlega sama málinu frá þeim og við erum að ræða hér.

Þegar maður horfir á málið í heildarsamhengi hlutanna hefur maður enga tilfinningu fyrir því að þessi ríkisstjórn sé með einhverja sannfæringu fyrir þessu máli Framsóknar. Það er stórmerkilegt. Þó að hæstv. utanríkisráðherra hafi lýst hrifningu sinni hef ég enga sannfæringu fyrir því að þingmenn stjórnarflokkanna tveggja séu með á þessu máli, ég hef enga sannfæringu fyrir því. (Gripið fram í.) Ekki hef ég séð marga vinstri græna í ræðustólnum í dag að mæla fyrir þessu máli eða lýsa ánægju sinni með það. Ég kannast ekki við það.

Ég spyr mig líka: Hvers vegna eru þeir ekki bara einfaldlega á málinu, hvers vegna eru þeir ekki á þessu máli? Hvers vegna er þetta ekki bara stjórnarfrumvarp ef það er svona gott samkomulag um þetta á milli stjórnarflokkanna og Framsóknar? (EyH: Af hverju þurfa öll frumvörp að vera stjórnarfrumvörp?)

Þar fyrir utan hlýtur að vera dálítið merkilegt að þeir sem aðhyllast þessa leið við að breyta stjórnarskránni og vilja koma hér á stjórnlagaþingi í þeim tilgangi skuli á sama tíma ætla að standa að breytingartillögum á stjórnarskránni sem varða grundvallaratriði, atriði eins og það hvernig við stöndum að þjóðaratkvæðagreiðslu, hvernig verður farið með auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar og annað þess háttar. Á sama tíma og menn hafa sannfæringu fyrir því að stjórnlagaþing sé besti vettvangurinn eru menn nefnilega með ákveðnar hugmyndir sem þeir treysta sér sjálfir til þess að klára áður en stjórnlagaþingið kemur saman. Auðvitað er í þessu falin augljós mótsögn og algjör þversögn í raun og veru við grunnástæður fyrir frumvarpinu sem er hérna til umfjöllunar og menn hafa afskaplega lítið gert til þess að reyna að bregðast við athugasemdum um þetta atriði. Það er ósannfærandi málflutningur að koma á sama tíma með breytingartillögur að stjórnarskránni og menn segja í hinu orðinu að stjórnlagaþing sé rétti vettvangurinn til að breyta stjórnarskrá. Hvað halda menn annars að þessi nýju ákvæði sem menn ætla að mæla fyrir fái að lifa lengi þegar heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á síðan að fara fram beint í kjölfarið?

Ég held að ég hafi gert grein fyrir helstu athugasemdum mínum við þetta frumvarp en það gengur síðan væntanlega til nefndar og við (Forseti hringir.) höldum áfram að ræða það við 2. umr.