136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[18:24]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Forseti. Ég mótmæli því harðlega að ég geri mér ekki grein fyrir hvaða breytingar hafa verið gerðar á stjórnarskránni. Ég held að ég hafi einmitt farið nákvæmlega í gegnum það í framsögu minni hvaða breytingar hafa verið gerðar. Ég tiltók þær einmitt sérstaklega af því að þeim kafla í stjórnarskránni sem varðar stjórnskipun landsins, hvernig við dreifum valdinu, hefur aldrei verið breytt. Aldrei.

Ég tel að það sýni hvar áhugi okkar þingmanna hefur legið varðandi breytingar á stjórnarskránni. Við höfum oftast gert breytingar hvað varðar kjördæmaskipan og kosningar á okkur sjálfum. En menn virðast telja að best sé að breyta stjórnarskipuninni sem allra minnst, enda vildum við varla sjá að valdinu væri dreift, sérstaklega ekki sá flokkur sem haldið hefur einna fastast um valdasprotann á Íslandi.

Eins og ég kom að í fyrra andsvari mínu finnst mér sú hræðsla sem við höfum orðið vör við í tali sjálfstæðismanna í dag, fyrir utan hv. þm. Pétur Blöndal, vera nákvæmlega sama hræðslan og við sjáum hjá Sjálfstæðisflokknum gagnvart Evrópusambandinu. Þetta snýst um að menn eru hræddir við að tapa völdum. Það er einmitt það sem góð stjórnarskrá á að gera. Hún á að tryggja raunverulegt lýðræði. Hún á að tryggja að það sé dreifing á valdinu og hún á líka að tryggja að fylgst sé með öllum valdhöfunum, að það sé raunverulegt eftirlit þannig að þegar við höfum þrjá arma hafi þeir eftirlit hver með öðrum og fylgist með því hvað gert er. Að öðru leyti held ég að ég hafi ekki neinar fleiri athugasemdir varðandi ræðu hv. þm. Sturlu Böðvarssonar.