136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[18:28]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að þakka virðulegum þingmönnum Framsóknarflokksins fyrir það ágæta mál sem hér er til umfjöllunar og fyrir frumkvæði sitt í málinu almennt. Ég hygg að það hafi verið undir forustu þess grandvara fyrrverandi alþingismanns og ráðherra, Jóns Kristjánssonar, sem málefnahópur starfaði á vegum flokksins að því að fara yfir tillögur um stjórnlagaþing og gera um það tillögu. Ég hef raunar sjálfur verið nokkur áhugamaður um þetta efni og lét í samvinnu við nefndasvið í janúarmánuði vinna frumvarpsdrög um stjórnlagaþing sem aðallega var byggt á málum sem þingmenn jafnaðarmanna fluttu hér áður, bæði á níunda og tíunda áratug síðustu aldar.

Annað málið hefur þegar verið nefnt en það var mál sem flutt var af hæstv. núverandi forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, og varðaði stjórnlagaþing en annað hygg ég að hafi ekki komið fram í umræðunni. Það var þingsályktunartillaga en ekki frumvarp til laga sem flutt var undir forustu Stefáns Benediktssonar, þingmanns Bandalags jafnaðarmanna, árið 1986 og er í því að finna margt góðra tillagna og skeleggra, eins og háttur var Bandalags jafnaðarmanna. Er raunar ástæða til að mæla sérstaklega með greinargerð þess ágæta frumvarps þar sem er að finna býsna góðan greinaflokk um efnið.

Frumvarpsdrögin birti ég fyrir nokkru á heimasíðu minni, helgi.is. Fyrir áhugamenn um efnið má kynna sér þar þær tillögur sem eru í aðalatriðum auðvitað keimlíkar þeim sem hér er verið að ræða. Þó að margir deili áhuga á stjórnlagaþingi er formið auðvitað óútrætt, hvernig því sé best háttað, hvort það eigi að vera fleiri eða færri sem sitji það þing, hvort það þing eigi að starfa lengur eða skemur, hvort það eigi að kjósa um leið og kosið er til Alþingis eða eftir að alþingiskosningar eru yfirstaðnar, hvort niðurstöður þess eigi að leggja í þjóðaratkvæðagreiðslu eða hvort þær þurfi að koma fyrir þingið aftur o.s.frv.

Ég held að það sé þó ótvírætt að það fari langbest á því að niðurstaða stjórnlagaþings fari beint og milliliðalaust til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu án viðkomu hér þannig að þjóðin kjósi sér sjálf sitt stjórnlagaþing beint sem leggi síðan niðurstöðu sína í dóm þjóðarinnar og án milligöngu Alþingis. Hér hefur nokkuð verið rætt í umræðunni hvers vegna eitthvert annað þing en Alþingi ætti að taka til umfjöllunar stjórnarskrána og hvort Alþingi sé ekki fullgott til þess.

Ég held að út af fyrir sig sé hægt að tilfæra margar ástæður fyrir því og ein er einfaldlega sú að samfélagskerfi okkar hefur hrunið. Það hefur hrunið til grunna og sú einfalda staðreynd gefur auðvitað sjálfstætt tilefni til þess, algerlega óháð forsögunni og umræðum áður um stjórnarskrá og endurskoðun hennar, að fara ítarlega og vel yfir það með hvaða hætti við í grundvallaratriðum skipum málum í samfélaginu. Jafnvel þó að við höfum aldrei átt í neinum erfiðleikum með að gera breytingar á stjórnarskrá og hér hafi verið almenn sátt um árabil og áratugaskeið um stjórnarskrána og allir verið ánægðir með skiptingu valdsins o.s.frv., gefur það eitt að kerfið hrundi algerlega sérstakt tilefni til að gera þetta.

Ég held að það sé býsna augljóst hvers vegna að kjósa á til þess sjálfstætt þing. Það er einfaldlega þannig, eins og við finnum á hverjum degi, að Alþingi er sannarlega störfum hlaðið. Hér eru sannarlega fjölmörg brýn úrlausnarefni herðum þingmanna, brýn stjórnarfrumvörp sem vinna þarf og betrumbæta og tryggja framgang, brýn úrlausnarefni fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Sú umfjöllun tekur auðvitað verulegan tíma og á að taka verulegan tíma. Sú stofnun sem hér starfar hefur enga aðstöðu til þess að leggja hér undir hálft eða eitt eða tvö ár til að ræða í þaula og einbeita sér algjörlega að því verkefni sem grunngerð samfélagsins er. Ég held þess vegna að þingmenn eigi ekki að taka það til sín eða finnast það vera sér til minnkunar að kjósa ætti sérstakt þing til að fara yfir þessi efni vegna þess að hér er um heildarendurskoðun að ræða, umræðu algerlega frá grunni. Það eru einfaldlega málefnalegar og skynsamlegar ástæður fyrir því að ástæða er til að kalla sérstakt þing að því.

Það eru líka mjög sterkar málefnalegar ástæður fyrir því að við sem hér sitjum í umboði stjórnmálaflokkanna eigum sem minnst áhrif að hafa á störf þess þings og líka stjórnmálaflokkar okkar. Það er því eðlilegt að ekki sé gert ráð fyrir að þingmenn eða ráðherrar séu kjörnir til þess þings eða fyrrverandi þingmenn. Það er sjálfsagt að leita ráða til þess að kjörnir verði einstaklingar í umboði þjóðarinnar með sem allra minnstum áhrifum stjórnmálaflokkanna vegna þess að stjórnmálaflokkarnir okkar eru hluti af valdakerfinu í landinu. Stjórnmálaflokkarnir eru valdastofnanir rétt eins og dómstólarnir, framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið. Stjórnlagaþing sem á að fara yfir og endurskoða alla grunngerð samfélagsins, valdþættina og mörk þeirra og setja þeim leikreglur, á augljóslega að vera sem allra mest laust undan beinum eða óbeinum áhrifum valdastofnananna sjálfra á þinginu. Þannig tryggjum við best að almannahagsmunir séu sem allra mest hafðir að leiðarljósi í þeirri mikilvægu vinnu sem þarf að fara fram á stjórnlagaþingi. Þar eru auðvitað fjölmörg atriði sem hér hafa verið í umræðu árum og jafnvel áratugum saman og er óþarfi að fjölyrða mikið um. Þar er það t.d. grundvallaratriði að fara vel yfir mörkin á milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins og kannski ekki síst að efla eftirlitshlutverk Alþingis. Ég vil segja það, eftir reynslu mína að sitja í fjárlaganefnd Alþingis á síðasta kjörtímabili, að þótt stigin hafi verið ýmis skref í þá átt að efla og styrkja eftirlitshlutverkið, einkanlega með embætti umboðsmanns Alþingis og eflingu Ríkisendurskoðunar á umliðnum árum, eigum við býsna langt í land með að efla eftirlitshlutverk Alþingis svo fullnægjandi sé.

Við höfum vonir um að geta byrjað að þróa á þessu kjörtímabili, fyrir forgöngu fyrrverandi forseta Alþingis, opna nefndarfundi sem ég held að væru sannarlega mikilvægt skref í því að beita þinginu í eftirliti fyrir opnum tjöldum og í fullu gagnsæi. Það eru líka þau atriði sem varða beint lýðræði og rétt fólks til beinna áhrifa á stærstu ákvarðanir sem er löngu tímabært að ræða í þaula og tryggja almenningi aðkomu að stærstu ákvörðunum sem varða heill og hagsmuni flestra heimila og fyrirtækja í landinu, stórra deilumála sem á stundum hafa sundrað þjóðinni eftir endilöngu en almenningur hefur aldrei átt kost á að koma að.

Við þurfum sömuleiðis að fjalla um fjölmörg önnur grundvallaratriði í samfélagsgerð okkar. Þess vegna er fagnaðarefni frumkvæði Framsóknarflokksins í þessu efni. Ég hygg að það muni eiga mjög marga stuðningsmenn í þinginu sem vilji ljá málinu lið sitt í vinnslu þess þó að ýmislegt í útfærslunni sé, eins og ég sagði áður, auðvitað ekki að fullu rætt.