138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

tekjuskattur.

386. mál
[14:13]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta voru gagnlegar hugleiðingar hjá hv. þingmanni. Ég tek undir margar þeirra. Varðandi embætti tollstjóra og skattrannsóknarstjóra eru þau bæði öflug á landsvísu. Sama gildir auðvitað um ríkisskattstjórann sem nú hefur verið sameinaður í eitt öflugt embætti. Það hefur orðið mikil þróun í þessum störfum. Hin rafræna tækni hefur einfaldað úrvinnslu mála mjög og það gildir um öll þessi embætti, sérstaklega kannski tollstjóra- og ríkisskattstjóraembættin, að mannshöndin kemur í æ minna mæli að afgreiðslu einstakra mála í því formi að handfjalla pappír. Stærstur hluti framtala stefnir í að verða algerlega rafrænn og úrvinnsla þeirra líka þannig að framtölin og viðkomandi gögn líta aldrei dagsins ljós á prentuðum pappír. Þetta gerir það að verkum að þeim mannafla fækkar sem er í hefðbundinni úrvinnslu slíkra mála og þar með er hægt að efla aðra þætti eins og skatteftirlit og sérhæfingu. Það held ég að muni leggjast með í þessu starfi og skatturinn mun standa sína plikt og ráða vel við bæði þær breytingar sem gerðar voru á skattkerfinu nú síðast og voru á endanum einfaldari en fyrri áform stóðu til sem og að sinna þessu mikilvægu verkefnum. Ég held að ég geti fullyrt að skattyfirvöld takast á við rannsóknir mála af mikilli festu og alvöru og eru framarlega í röðinni og ég yrði ekki hissa á því þó að mörg stór mál litu fyrst dagsins ljós í því formi að skattyfirvöld yrðu lengst komin í því að fullnusta þar aðgerðir.

Kyrrsetningin sem slík sem hér er til umræðu er aðeins hliðaraðgerð í rannsókn mála, öryggisaðgerð til að tryggja að verðmæti gangi ekki undan í slíkum tilvikum. Í farvatninu eru rannsóknir á allmörgum mjög stórum málum sem hér geta átt undir, bæði varðandi hluti úr fjármálaheiminum og einstaklinga sem veltu gríðarlegum fjármunum og/eða hafa t.d. fengið niðurfelldar miklar persónulegar skuldir sem bindandi úrskurður (Forseti hringir.) hefur núna fallið um að skuli teljast skattskyldar tekjur. Þá getur reynt á ýmis ákvæði af þessu tagi þegar til (Forseti hringir.) innheimtunnar kemur.