138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

375. mál
[15:20]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson hefur gert mjög vel grein fyrir áætlunarbúskap ríkisstjórnarinnar sem er orð sem var okkur mjög tamt á fyrri áratugum en hefur nú skotið upp kollinum á ný í mínum huga þegar litið er til þeirra stöðugu áætlana sem koma frá hæstv. ríkisstjórn og maður spyr sig að því hverjar efndirnar verði.

Hér er komið fram frumvarp til breytinga á lögum um Stjórnarráð hvað varðar siðareglur. Við munum að sjálfsögðu fara rækilega yfir þetta mál í allsherjarnefnd en ég verð að segja strax í upphafi að auðvitað er það góðra gjalda vert að setja siðareglur og ég hygg að það hafi líka verið ráðgert í tíð fyrri ríkisstjórnar sem Sjálfstæðisflokkurinn átti aðild að. Menn verða samt að gæta sín á því að gera ekki meira úr siðareglum en efni þeirra gefur til kynna. Víða um lönd hafa siðareglur verið settar og það þarf ekki að fjölyrða um að á vettvangi hins fallna fjármálakerfis voru til gríðarlega margar siðareglur, siðareglur fjármálafyrirtækja voru til, siðareglur hjá Kauphöll Íslands voru til, alls konar siðareglur hafa verið settar en þær geta því miður orðið aðeins orð á blaði vegna þess að við siðareglum eru engin tæk viðurlög sem neinu nemur. Þetta þarf að hafa í huga þegar litið er til siðareglna, jafn mikilvægar og þær eru, ég geri ekki lítið úr því en það þarf samt að setja þetta í ákveðið samhengi.

Það er líka ástæða til þess og mig langar að fá svör við því frá hæstv. forsætisráðherra, nú þegar hún fer væntanlega með lokaræðu sína í þessari umræðu: Hvernig er samspilið á milli þessarar nefndar sem hér er talað um, samhæfingarnefndar um siðferðisleg viðmið fyrir stjórnsýsluna, og annarra stofnana sem þegar eru á Íslandi og hafa eftirlit með stjórnsýslunni? Þar er ég sérstaklega að hugsa um umboðsmann Alþingis því að þessi nefnd hefur mjög háleit markmið í sínum störfum. Hún þarf að stuðla að því að siðferðisleg viðmið séu í hávegum höfð, hún þarf að veita umsagnir og hjálpa til með siðareglur, sinna upplýsingaöflun og stuðla að því að brugðist sé með samhæfðum hætti við ábendingum eftirlitsembætta Alþingis og þar er um umboðsmann að ræða. Einnig þarf hún að taka þátt í ýmiss konar samstarfi og hún þarf að gefa forsætisráðherra árlega skýrslu um starf sitt, það kemur fram í 1. mgr. Slíka skýrslu þarf að ræða á Alþingi og þar eiga að vera aðgerðir til efla traust á stjórnsýslunni, draga úr hættu á spillingu og vanda betur til verka. Hér er um að ræða ákveðna skörun við starf umboðsmanns Alþingis og raunar kemur fram í lokasetningunni í þessari grein að það þurfi að hafa reglulegt samráð við umboðsmann Alþingis og Ríkisendurskoðun. Þegar menn setja svona reglur og í rauninni lagaramma utan um reglurnar — það ætti að vera til merkis um það hversu mikilvægt þetta er í augum ríkisstjórnarinnar þegar sett er um þetta sérstök umgjörð með lögum — þá þarf að velta fyrir sér hvernig þetta rímar við þau embætti sem þegar eru til staðar og að þetta verði ekki til þess að draga úr því mikilvæga hlutverki sem umboðsmaður Alþingis hefur í stjórnsýslunni. Mig langar til að spyrja hvernig samráði var háttað við umboðsmann Alþingis við að semja þessar reglur og nánar um það hvernig menn hugsa sér að halda áfram með þetta.

Einnig langar mig að spyrja hvort það hafi verið rætt á vegum forsætisráðuneytisins hvernig ætti að fara með ef ekki væri farið að þessum reglum. Hvernig ætla menn að bregðast við því og hvernig hugsa menn sér að það muni ríma við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins? Á að fara í áminningakerfið? Hvernig er það allt saman hugsað? Það þarf að hafa heildarmyndina fyrir framan sig. Ég geri ráð fyrir að þessu verði vísað til allsherjarnefndar og það er mikilvægt að hún skoði þetta mál mjög rækilega.

Hitt er svo annað mál að það er dálítið kúnstugt, frú forseti, að ræða þetta frumvarp í dag. Í morgun vorum við önnum kafin við að fresta nauðungarsölum til 31. október á þessu ári. Í þriðja skipti frestuðum við nauðungarsölum á Alþingi. (BJJ: Enn eina ferðina.) Í fyrsta skipti var það held ég í febrúar á síðasta ári og þá var það í mjög takmarkaðan tíma til að gefa ríkisstjórninni svigrúm til að koma með aðgerðir til að hjálpa heimilunum í landinu. Síðan höfum við í tvígang þurft að fresta þessum nauðungarsölum og nú þurfti allsherjarnefnd í málsmeðferð sinni að lengja þann frest sem hæstv. dómsmálaráðherra hafði gert ráð fyrir og nauðungarsölu verður frestað fram til 31. október. Af hverju er ég að nefna þetta? Vegna þess að það er átakanlegt við þær aðstæður sem hér eru að við séum stöðugt að bregðast við aðstæðum sem ganga ekki eftir. Alls kyns áætlanir til langs tíma eru lagðar fram sem hafa ekkert að gera með þann mikla vanda sem við erum í núna. Þessi sóknaráætlun sem var til umræðu í síðustu viku er líka góðra gjalda verð og ég get tekið undir það sem þar segir um mikilvægi þess að samræma þær áætlanir sem eru gerðar á vegum ríkisins en það vantar aðgerðir til að bregðast við því ástandi sem nú er. Hvað varðar þessa nauðungarsölu vil ég benda á, vegna þess að hæstv. forsætisráðherra situr hér — það er ágætt að hafa hana undir þessari umræðu og geta þá í leiðinni bent á aðrar þær áætlanir sem ekki hafa gengið eftir — að ég held að það sé mikilvægt varðandi vanda heimilanna að hann er ekki hægt að leysa á sviði fullnusturéttarfarsins og hann er heldur ekki félagslegt vandamál. Þetta er efnahagsleg ógn sem steðjar að Íslandi og það þarf að taka á þessu með þeim hætti. Þetta er efnahagsleg ógn, þetta ógnar þjóðhagslegu öryggi þjóðarinnar og það þarf að bregðast harkalega við þessu áður en við förum í haust að framlengja nauðungarsölu enn á ný. Nota bene, nauðungarsölurnar sem frestast eru allar á fullum dráttarvöxtum svo þetta er sýnd veiði en ekki gefin fyrir heimilin í landinu. Ég held að þetta sé allt saman mikilvægt þegar litið er til þeirra mála sem ríkisstjórnin setur í forgrunn.

Í aðdraganda kosninga í vor sagði ríkisstjórnin að hefja þyrfti mikið átak í atvinnumálum, það þyrfti að reisa skjaldborg um heimilin og byggja velferðarbrú. Það þyrfti að ráðast í það verkefni strax og það væri komið nóg af því verkleysi sem hefði einkennt forustu fyrri ríkisstjórnar, sagði nýja ríkisstjórnin. Nú ætti að taka til hendinni og fara að byggja brýr. (BJJ: Hvar eru þær?) Nú skyldu sköpuð störf. Ég lýsi eftir þessum velferðarbrúm og skjaldborgum og ég lýsi líka eftir þessum 4.000 ársverkum, nú þegar atvinnuleysið vex sífellt og við erum stöðugt hrædd um að fólk flytji burt frá landinu. Við slíkar aðstæður er von að maður spyrji hvort það sé brýnasta verkefnið — ég get ekki annað en tekið undir margt af því sem kemur fram í þessu frumvarpi en er þetta brýnasta verkefnið á borði ríkisstjórnarinnar núna? Hvar eru allar þær tillögur um hvernig halda eigi áfram að reisa atvinnulífið við? Hvernig stendur á því t.d. að sú niðurstaða sem kemur frá hæstv. iðnaðarráðherra, Katrínu Júlíusdóttur, hvað varðar uppbyggingu á orkufrekum iðnaði á suðvesturhorninu er allt í einu orðin að 30 störfum? Hvað hefur eiginlega gerst? Þetta hefur allt skroppið saman. Þetta er mjög alvarlegt mál, frú forseti.

Það verður ekki búið við þennan áætlunarbúskap mikið lengur. Ég held að það sé kominn tími til þess að hæstv. ríkisstjórn snúi sér að því mikilvæga verkefni að reisa efnahagslífið við. Stjórnarandstaðan hefur verið reiðubúin til að taka þátt í því með ríkisstjórninni. Við höfum fulltrúa hjá hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra í því verkefni að leysa úr skuldavanda heimilanna. Okkur hefur því miður þótt heldur hægt ganga. Hvað varðar atvinnumál þá liggur fyrir að stjórnarandstöðuflokkarnir eru mjög áfram um að byggja upp atvinnu í landinu. Það er alveg klárt mál en hér fer tíminn því miður í að ræða áætlunarbúskap, eitthvað sem gerist eftir mörg ár. Þótt það sé mjög gott að huga að framtíðinni í leiðinni þarf að líta til þess sem er að gerast núna. Það er ekki hægt að bíða lengur með þetta. Vandinn er að verða allt of stór fyrir okkur.

Hvert er eiginlega hlutverk Alþingis Íslendinga? Er ekki kominn tími til að við tökum á og tökum þær ákvarðanir sem nauðsynlegt er að taka? Hér var utandagskrárumræða í dag. Menn hafa miklar áhyggjur af því sem er að gerast í bönkunum og það er alveg rétt að við verðum auðvitað að treysta því að markaðurinn sjái um hlutina með þeim hætti sem við höfum hingað til haldið að væri best. Stundum þarf samt að hjálpa mönnum af stað og það þarf að skapa reglur og umgjörð. Ég spyr hvort ekki sé kominn tími fyrir okkur alþingismenn að snúa okkur að því að koma að eigin frumkvæði inn með mál sem hjálpa til í þessu erfiða ástandi sem hér er nú.

Þetta mál ásamt sóknaráætlun 20/20 er nú á leið inn í allsherjarnefnd þar sem þetta verður tekið til umfjöllunar. Þar eru líka önnur mál sem ekki komast á dagskrá en varða mjög mikilvæga hagsmuni Íslendinga, t.d. hvað varðar gengistryggðu lánin, mál frá hv. þm. Eygló Harðardóttur sem snýr að því að þeim málum verði flýtt sem þurfa að fara til Hæstaréttar út af gengistryggðu lánunum. Það verður að forgangsraða í þágu fjölskyldnanna í landinu, frú forseti, og þótt það sé prýðilegt að setja siðareglur um starfsmenn Stjórnarráðsins og það megi fara í það verkefni þarf fyrst og fremst að huga að heimilunum í landinu. Hæstv. forsætisráðherra hefur fram að þessu haft — ég veit að hún ætti að bera hag þeirra fyrir brjósti, ég trúi ekki öðru en svo sé og veit það. Það verður að snúa sér að þessum verkefnum. Þetta er orðið mjög brýnt og það verður ekki beðið með þetta lengur.