138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

342. mál
[18:18]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir mjög góðar viðtökur við þetta mál og ég er sammála honum um að þetta er mál sem ég held að við gætum sameinast um, kannski ekki allir, en meiri hluti þingsins held ég að gæti orðið á bak við málið. Þetta er mál sem skiptir mjög miklu fyrir landbúnaðinn og það hefur líka fengið sérstaka umfjöllun í Verðlagsnefnd búvara, þá að sjálfsögðu í öðrum búningi, eins og ég nefndi áðan, og þar var mikill stuðningur við þetta sjónarmið. Það er þá verkefni hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að skoða það hvort hún kýs að gera einhverjar breytingar á þessu. En aðalatriðið er að við komumst að þeirri niðurstöðu og leiðum það í lög að horfið verði frá þessum verðtilfærslum og verðmiðlunum eins og þær eru í lögum af því að þær eru skaðlegar fyrir íslenskan landbúnað eins og þær eru í dag.

Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um þetta. Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði um Evrópusambandið. Evrópusambandið sýnir nú sitt rétta andlit gagnvart landbúnaðinum eins og sjávarútveginum með þeirri umsögn sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur nýverið sent frá sér. Það er t.d. alveg ljóst mál að það sem þar er verið að boða er algjör uppstokkun á öllu stuðningskerfi landbúnaðarins eins og það leggur sig, það er ekki flóknara en það. Það mundi hafa gífurlega mikil áhrif á stöðu landbúnaðarins, hv. þingmaður nefndi að gögn hjá Bændasamtökunum bentu til þess, og við höfum svo sem séð í þessari umræðu. Ég geri ráð fyrir að við hv. þrír þingmenn sem hér erum inni mundum ekki vera mjög ósammála um þetta mat.