141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er merkisdagur í dag. Það eru 90 ár síðan fyrsta konan tók sæti á Alþingi. Þessi brautryðjandi var fröken Ingibjörg H. Bjarnason, kennari og skólastjóri í Kvennaskólanum í Reykjavík.

Fröken Ingibjörg, eins og ég vandist að kalla hana sem ung stúlka í Kvennaskólanum í Reykjavík upp úr 1970, var brautryðjandi í fleiru því að hún var fyrst Íslendinga til að ljúka leikfimikennaraprófi. Um hana var talað af mikilli virðingu í skólanum. Hún átti stóran þátt í að leggja grunninn að því góða og mikilvæga starfi sem Kvennaskólinn í Reykjavík á í því að mennta konur þessa lands og veita þeim með menntun sinni heilbrigða sjálfsmynd.

Það hefur örugglega ekki verið auðvelt að vera eina konan í því karlasamfélagi sem Alþingi var og má segja að enn eimi eftir af því að skipulag starfsins hentar oft ekki þeim sem vilja gjarnan vera virkir þátttakendur í lífi fjölskyldu sinnar.

Mikið hefur gerst í jafnréttisbaráttunni síðan fröken Ingibjörg settist á þing og vann þar að ýmsum góðum málum eins og byggingu Landspítalans. Nú sitja 24 konur á þingi sem gera 38% þingmanna. Það er mikill viðsnúningur en betur má ef duga skal.

Konur þurfa að sjálfsögðu að vera virkar á öllum sviðum mannlífsins. Það auðgar og gefur betri mynd af veruleikanum. Það á ekki bara við stundum heldur alltaf. Það hefur verið dökkur blettur á okkar góða samfélagi um árabil að við höfum ekki náð utan um óútskýranlegan launamun kynjanna. Það er því sérstaklega ánægjulegt að stjórnvöld hafa nú viðurkennt vandann og hafið sókn í jafnlaunastefnu.

Fyrstu skrefin hafa verið stigin með því að viðurkenna að hin svokölluðu kvennastörf hafi setið eftir í kjarabótum og brugðist hefur verið við því, t.d. með auknu fjármagni inn í stofnanasamning hjúkrunarfræðinga og Landspítalans. Hér væri hægt að hafa mörg orð um gildi starfa og launalegan mun þeirra sem vinna til dæmis með börnum og sjúkum og hinna sem sýsla með pappíra og peninga en til þess gefst því miður ekki tími.

Til hamingju með daginn, jafnréttissinnar, og takk fyrir að ryðja brautina, fröken Ingibjörg.