149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

ávana- og fíkniefni.

711. mál
[12:07]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Já, ég stenst ekki mátið að nýta tækifærið til að standa hér glöð og þakklát í ræðustól. Það er staðreynd að á sama tíma og okkur sem erum í stjórnarandstöðu ber að vera vakandi og veita ríkisstjórninni virkt aðhald, og láta í okkur heyra þegar við teljum ástæðu til, þá felst í því ákveðin skylda til að standa upp og styðja við þau framfaraskref sem við teljum að verið sé að stíga. Þetta er einfaldlega slíkt mál.

Það er virkilega lofsvert af hæstv. ráðherra að leggja frumvarpið fram. Lengi hefur verið kallað eftir því og þörfin er mikil. Staðreyndin er sú að hún vex með tímanum og gríðarlega hratt. Við stöndum uppi með þá þekkingu núorðið að fíkn er sjúkdómur og ber að meðhöndla hana sem slíka og í samræmi við það. Það felur einfaldlega í sér, eins og með aðra sjúkdóma, að við þurfum að veita fólki stuðning til að takast á við fíknina með aðgengi að ólíkum meðferðarúrræðum á eigin forsendum í stað þess að fara með fólk sem ánetjast vímuefnum sem ótínda glæpamenn.

Í stað þess að útiloka fólk sem hefur ánetjast vímuefnum frá samfélaginu, horfa í hina áttina, vera þakklátur fyrir að vera ekki í þeim hópi eða neyða fólk til að fara í eina ákveðna samþykkta tegund meðferðar, sem í þokkabót hefur sýnt sig að ber verulega takmarkaðan árangur, er þetta rétta leiðin. Þó svo að neyslurými hafi ekki verið starfrækt af sveitarfélögum á grundvelli laga til þessa höfum við þó sem samfélag fengið að sjá jákvæð áhrif þessarar nálgunar í gegnum skaðaminnkandi starf sjálfboðaliðasamtaka Frú Ragnheiðar, líkt og hæstv. ráðherra nefndi í ræðu sinni.

Á þeirra vegum hefur sérinnréttuðum bíl verið ekið á milli einstaklinga sem tilheyra þessum jaðarsettu hópum í samfélaginu á borð við heimilislausa og einstaklinga sem nota vímuefni í æð. Sex sinnum í viku, ef ég fer rétt með, er þeim boðin aðstoð á eigin forsendum þar sem boðið er upp á hreinar nálar, sprautur, nálabox, ráðgjöf og annað sem þarf til að draga úr líkum á smiti á lífshættulegum sjúkdómum sem gjarnan fylgja neyslu.

Ein jákvæðustu áhrif þessarar þjónustu, fyrir utan persónulegu áhrifin, er að draga úr jaðarsetningu sem er mjög mikilvægt fyrir öll samfélög, ekki síst nú á tímum, og ekki síður að draga úr álagi á heilbrigðiskerfið, álagi sem fylgir áhættusamri neyslu vímuefna. Þetta kom fram í máli hæstv. ráðherra áðan, þessar þrjár tegundir ávinnings, þ.e. sá persónulegi, sá samfélagslegi og sá fjárhagslegi. Útgáfa þessarar lausnar hefur að einhverju leyti verið reynd á Íslandi og reynslan af henni er góð og á því hvílir málið væntanlega að ákveðnu leyti.

Mig langar að benda aðeins á umsögn Rauða krossins í samráðsgáttinni. Þar er talað um að neyslurými verði fundið húsnæði sem tengist ekki beinlínis öðru húsnæði fyrir vímuefnanotendur, heimilislausa einstaklinga, þ.e. verði ekki í þeim aðstæðum sem fólk veigrar sér við að mæta í. Þá bendi ég sérstaklega á konur sem gjarnan eru útsettar fyrir ákveðinni misnotkun ef þær aðstæður eru uppi.

Ég sé það í greinargerð með frumvarpinu að þetta er sama málið og er verið að stefna að víðast annars staðar. Það er líka mikilvægt samkvæmt rannsóknum verkefnastjóra Rauða krossins, og þeirra sem hafa skoðað þessi mál með tilvísun í það sem verið er að gera í löndunum í kringum okkur, að staðsetningin sé miðsvæðis, nálægt þeim sem eru í þörfinni. Þá erum við kannski komin með þessa staðsetningu alla í einn graut þannig að það er ákveðin áskorun en þetta eru alla vega hlutir sem mjög mikilvægt er að hafa í huga.

Síðan er það líka annað mál að ef ná á markmiðunum þarf að tryggja að friðhelgi neyslurýma sé tryggð og að lögreglan geti stutt við starfsemi rýmanna, að heimildir hennar séu svo skýrar að öryggi notenda sé tryggt á sama hátt og hún heldur áfram að vinna gegn brotastarfsemi sem gjarnan tengist ávana- og fíkniefnanotkun. Ég fór í gegnum það með hæstv. ráðherra áðan og fékk svör og treysti því og vona að það verði unnið áfram.

Í lokin langar mig að nefna að það er nauðsynlegt, þegar til svona neyslurýma verður stofnað á grundvelli þessara laga, að byggt verði á reynslu þeirra samtaka sem hafa unnið við skaðaminnkandi úrræði. Þar nefni ég aftur Frú Ragnheiði, þ.e. Rauða krossinn, Ungfrú Ragnheiði, Konukot, Gistiskýlið og slíkt. Það er gríðarlega mikilvægt að kraftar þessara aðila sem hafa reynslu og þekkingu, og eiga ekki síst traust þeirra sem þurfa á þessari þjónustu að halda, séu nýttir áfram. Við erum mjög gjörn á að líta á praktísku atriðin en það er þetta traust sem skiptir öllu máli ef nýta á þessi úrræði eins og vonir standa til.

Ég fékk tækifæri til að nefna við hæstv. ráðherra úrræði fyrir þá einstaklinga sem eru háðir vímuefnum, ekki síst vímuefnum í æð, og öryggi þeirra, en eru yngri en 18 ára. Ég óska þess að samstarf við til þess bær yfirvöld, barnaverndaryfirvöld og þá hæstv. velferðarráðherra sem fulltrúa þar, verði skoðað áfram og útvíkkað á einhvern mögulegan hátt. Vegna þess að öll rök sem hníga að því að þetta sé mjög gott úrræði fyrir 18 ára og eldri eiga jafn vel við fyrir þá yngri. Að öðru leyti þakka ég fyrir þetta mál og styð hæstv. ráðherra heils hugar í að ná því í gegn.