149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

ávana- og fíkniefni.

711. mál
[12:14]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp hæstv. heilbrigðisráðherra til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, sem hefur verið kallað neyslurými. Ég held að það sé sérstök ástæða til að hrósa hæstv. ráðherra og ráðuneytinu fyrir framlagningu þessa máls. Það er greinilegt við lestur greinargerðarinnar og yfirferð málsins að lögð hefur verið töluverð vinna í það í ráðuneytinu að búa málið sem best úr garði til að tryggja það að þeir endar sem væri hægt að hnýta í aðdraganda þess væru hnýttir.

Þetta er allt mjög mikilvægt og málið er kannski ekki síst mikilvægt í ljósi þess að við erum hér að fjalla um afar viðkvæman þjóðfélagshóp, hóp sem á sér kannski ekki sérlega marga málsvara í samfélaginu, á undir högg að sækja og er haldin fíkn sem sjúkdómi sem jafnvel hluti samfélagsins er ekki einu sinni inn á að samþykkja að sé sjúkdómur. Það er ekkert einfalt mál að þurfa að bera þann vanda með sér og eiga svo kannski meira og minna von á því öllum stundum að samfélagið eða hluti samfélagsins sé á lofti með refsivönd eða umvöndunarorð um að viðkomandi sé lasinn eða veikur. Það er vond staða.

Frumvarpið raungerir líka í lagalegum búningi stöðu sem hefur að mörgu leyti verið uppi. Við höfum verið með, eins og mér heyrðist einhverjir hv. þingmenn koma inn á, hreyfanleg neyslurými. Það má segja að sú aðstoð sem er til að mynda í boði í Konukoti sé vísir að þessu, þó að Konukot sé náttúrlega ekki neyslurými, en t.d. nálaskiptiprógramm og stuðningur er að einhverju leyti sambærileg aðstoð og ég geri ráð fyrir að yrði í boði í neyslurýmum.

Það er aðeins komið inn á það í greinargerðinni að það yrði að tryggja einhvers konar samstarf við lögreglu og löggæsluyfirvöld á viðkomandi stöðum. Auðvitað vitum við það að í praktískum skilningi erum við líklegast að tala um að sett yrðu upp eitt til tvö svona úrræði á Íslandi. Það er afar hæpið að þetta yrði víðar. En einmitt vegna þess að það er langlíklegast að þetta yrði sett upp í Reykjavík og yrði þar með væntanlega að einhverju leyti fjármagnað af borginni, þá kann að vera að það þyrfti að ræða það sérstaklega við borgina með hvaða hætti yrði staðið að því.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir aðkomu heilbrigðisstarfsmanna og eins og hv. þingmenn þekkja þá þarf að sjá til þess að sú vinna sé greidd og gengið frá því með tilhlýðilegum hætti og það sé allt í lagi. Það þarf líka, eðli málsins samkvæmt, að tryggja öryggi í kringum svona starfsemi, ekki bara öryggi þeirra sem sækja þessa þjónustu heldur líka þeirra sem starfa þar og huga að þeim þáttum.

Þá hafa þingmenn komið einnig inn á atriði sem snúa að fólki sem er yngra en 18 ára. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir því að lögin eigi við um aðra en þá sem eru 18 ára og eldri, ef af yrði. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra, þá í samstarfi við ráðherra félags- og barnamála, að halda áfram að vinna að lausnum á þeim vanda og þá eðlilega í samstarfi við Barnaverndarstofu, mögulega Stuðla eða a.m.k. að fá ráðgjöf frá þessum aðilum, því að við þurfum líka að tryggja að þessir einstaklingar eigi, ég veit ekki hvort er rétt að kalla það sama rétt en alla vega sömu möguleika á þjónustu og úrræðum og þeir sem eldri eru. Í heimi fíkniefnanotandans breytist líklega ekkert rosalega mikið daginn sem hann verður 18 ára annað en að hann verður 18 ára og þar með lögráða. Þess vegna er mikilvægt að löggjafinn og framkvæmdarvaldið horfi til þessa hóps sérstaklega.

Ég geri ráð fyrir að hv. velferðarnefnd fái þetta mál til umræðu. Ég á ekki von á öðru en að nefndin muni taka vel í að afgreiða það. Ég mun a.m.k. beita mér fyrir því. Ég vona að hv. þingmenn séu mér sammála í því að hér er á ferðinni mikil réttarbót fyrir afmarkaðan hóp, lítinn hóp, en hóp sem er í mjög erfiðri stöðu og þess vegna full ástæða til að við gerum það sem við getum til að styðja við hann.