149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

ávana- og fíkniefni.

711. mál
[12:21]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, með síðari breytingum, í sambandi við neyslurými fíkla. Það snertir fyrst og fremst þá sem neyta ávana- og fíkniefna og eru jaðarsettir í samfélaginu, félagslega og efnislega.

Ég ætlaði að koma í andsvar við ráðherrann í framsögu ráðherrans en var fullsvifaseinn og ákvað því að setja mig á mælendaskrá.

Ég ætla ekki að lengja málið mikið en fagna frumvarpinu og þeirri hugmynd að hjálpa fólki sem er í þessari stöðu í samfélaginu, sem er sprautufíklar og er oft í mjög slæmri aðstöðu með verkfæri sem valda sýkingum til að mynda, að veita því þann kost að vera í betri aðstöðu. Eins og segir í frumvarpinu er tekið tillit til reynslu annarra landa. Mér finnst þetta framfaraskref í að koma til móts við okkar minnstu bræður og systur.

En mig langaði í því samhengi — og það er eiginlega sú spurning sem ég hefði viljað spyrja ráðherrann að — að nefna að margumræddir biðlistar inn á meðferðarstofnanir eru ekkert að styttast. Það hnikast ekkert í því máli í rétta átt, að mér finnst. Kannski getur ráðherrann upplýst okkur betur um það.

Ég hef töluverðar áhyggjur af því að það skuli ekki vera að þróast í betri átt. Mikið af fíklum, fólki sem er í þeirri stöðu, þrá að komast út úr neyslunni. Gluggi fíkla, alkóhólista, sem eru á þessum stað í lífinu er oft mjög lítill eða opnast ekki oft, sá gluggi sem er viljinn til að taka skrefið inn í meðferð, taka skrefið til að sækja sér hjálp og þiggja hana.

Töluvert af þeim einstaklingum eru á þeim biðlistum sem ég var að nefna. Þannig er með fyrirkomulagið í meðferðarstöðvum, alla vega hjá SÁÁ, að það er ákveðin goggunarröð. Séu menn að sækja um í fyrsta skipti í meðferð fara þeir framar í röðina. Þeir sem eru mjög veikir, lífshættulega veikir, fá forgang og þá oft í samstarfi við Landspítalann, ef þeir eru það illa staddir að þurfa að fara á gjörgæslu eða eitthvað slíkt. Svo eru þeir aftar í röðinni sem oft eru kallaðir á meðferðarheimilum endurkomumenn og -konur. Það er oftar en ekki útigangsfólk og margt af því haldið sprautufíkn.

Ég hefði viljað spyrja ráðherrann hvort ekki sé í framhaldi af þessari aðgerð hægt að stíga það skref að fara í þá vinnu með meðferðarstöðvunum. Starfsfólk á meðferðarstöðvum er mjög sérhæft og stöðvarnar oft og tíðum með besta starfsfólkið í meðferðargeirum ávana- og fíkniefna í heiminum, leyfi ég mér að segja vegna þess að ég hef kynnt mér það.

Þetta fólk hefur náð gríðarlegum árangri. Um 50% þeirra sem klára meðferð t.d. frá SÁÁ eru enn óvirkir alkahólistar tveimur árum seinna. Árangurinn er því gríðarlegur. Sumir þurfa að fara oftar en einu sinni í meðferð og það er einmitt fólk í hópi þeirra fíkla sem eru nánast á götunni. Það er mjög algengt að þeir einstaklingar þurfi tvær, þrjár, fjórar meðferðir til að ná árangri, sem er eðlilegt innan meðferðarkjarnans. Það er ekki óeðlilegt að einstaklingur þurfi þrjár, fjórar meðferðir. Þá kviknar á perunni: Já, það var þetta sem ég þurfti að gera til að ná árangri. Það er oft lítil þúfa sem veltir stóru hlassi í því samhengi.

Ég varpa þessu fram af því að ráðherra situr í salnum og spyr hvort við getum ekki sameinast í þeirri vinnu að stytta raunverulega biðlista á áfengis- og vímuefnameðferðarstöðvum.