149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

ávana- og fíkniefni.

711. mál
[12:28]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu neitt sérstaklega frekar en allir aðrir, sem koma þó hingað upp og vilja tjá sig örlítið. Það er mjög klassískt fyrir stjórnmálamenn.

Mig langaði bara að segja að þó að ég fagna framkomu þessa frumvarps og telji í rauninni að þetta sé rétt leið, finnst mér þetta líka alveg gríðarlega erfitt. Mér finnst með einhverju móti að við séum að viðurkenna ákveðna uppgjöf. En stundum er nú lífið þannig, það er svo margt í því sem við ekki ráðum við. Stundum þurfum við hreinlega að bregðast við því sem út af ber. Ég er jú komin á þá skoðun að fyrir svo langt leiddan hóp eins og við horfum til í þessu máli, sé vissulega betra að huga að örygginu en hitt.

Mig langaði bara að segja að þó að við fögnum þessu frumkvæði finnst mér líka mjög erfitt að stíga þetta skref, og ég hygg að mörgum öðrum þingmönnum kunni að finnast það.

Því miður gat ég ekki verið viðstödd alla umræðuna því að ég þurfti að vera annars staðar, en ég veit að aðeins hefur verið komið inn á lagalega þáttinn. Það er vissulega eitthvað örlítið öfugsnúið þegar við segjum að hér sé um að ræða ólögleg fíkniefni en samt er það þó í einhverjum tilfellum þannig að við ætlum ekki að bregðast við því þegar fólk er í einhverjum ákveðnum aðstæðum.

Með þessu er ég ekki að segja að ég styðji ekki frumvarpið því að ég geri það og ég fagna því mjög að það sé komið í þingið. Við fáum umsagnir frá fagaðilum og getum þá tekið upplýsta og faglega umræðu um stöðuna og hvernig best sé að bregðast við henni.

En ég ítreka það sem ég sagði, mér finnst þetta erfitt og við verðum alltaf að passa upp á forvarnaþáttinn. Það hlýtur alltaf að vera nr. eitt, tvö og þrjú, að reyna að koma í veg fyrir, eins og kostur er, að fólk endi í þeim aðstæðum að við þurfum að bregðast við með einhverju eins og neyslurými.