149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

ávana- og fíkniefni.

711. mál
[12:49]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þetta er búin að vera löng leið. Stríðið gegn fíkniefnum var sett af stað fyrir mörgum áratugum, fyrir 40, 50 árum, og loksins erum við farin að stíga skref sem eru vænleg til sigurs í þessu stríði. Eins og það stríð hefur hingað til verið háð, þá hefur allt verið gert til að halda fíkniefnunum í burtu og þá ýtast þau niður í undirheimana og skaða það fólk sem við ætluðum í upphafi að vernda, okkar veikasta fólk. Það skaðar það fólk hvað mest. Það sýkist, fær alnæmi, lifrarbólgu og alls konar aðra sjúkdóma sem eru tengdir neyslunni, langt umfram það sem væri ef til væru neyslurými. Þetta hafa staðreyndir sýnt þar sem slíkt hefur verið gert.

Við erum loksins hætt í blindni að berjast í stríðinu gegn fíkniefnum við að halda þeim frá þar sem okkar veikasta fólk má líða þjáningar. Við erum farin að horfa á þetta út frá manneskjulegum sjónarmiðum. Það sem við viljum raunverulega gera er að minnka þá þjáningu sem óhófleg neysla fíkniefna veldur. Það er það sem við ætluðum í rauninni alltaf að gera og vildum gera, eða alla vega þau okkar sem vorum ekki að nota þetta í einhvers konar pólitískum tilgangi, til þess að skapa óvin sem væri hægt að berjast gegn, við getum kallað það einhvers konar popúlisma, og sanka að sér völdum í kjölfarið. Sums staðar var stríðið gegn fíkniefnum notað þannig. Það sem við viljum öll gera er að minnka þjáninguna sem þessi misnotkun veldur og neyslurými er eitt af skrefum í þá átt.

Í þingsályktunartillögunni sem við Píratar lögðum fram á sínum tíma, eftir að hafa rannsakað málið mjög vel, er þetta skref lagt til. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir, hún hefði að sjálfsögðu gert þetta þó að Píratar hefðu ekki farið af stað á sínum tíma, en ég þakka henni fyrir að nefna hana. Við rannsökuðum efni þessarar þingsályktunartillögu, sem þingmenn allra flokka voru aðilar að, gríðarlega vel. Við rannsökuðum það sem hafði gerst í Portúgal, í Sviss. Það sem gerðist í Portúgal var að þeir tóku skrefið lengra, þeir afglæpavæddu neysluna alveg á öllum fíkniefnum. Það var nefnilega svo mikill ópíumfaraldur í gangi þar á þeim tíma. Úrtölumennirnir sögðu eða þeir sem voru hræddir, skulum við frekar segja, langflestir voru allir af vilja gerðir í þessum efnum, en þeir sem voru hvað hræddastir sögðu: Neyslan á eftir að aukast, fíkniefnatúrisminn á eftir að koma og þetta á allt eftir að verða verra. Það gerðist ekki.

Þegar ég skoðaði gögnin fimm árum eftir að þetta var gert, það var tekin saman stöðuskýrsla um málin, var ástandið miklu betra. Það var minni neysla margra fíkniefna, örlítið meiri í sumum, en skaðinn sem hlaust af neyslunni, bæði alls konar sjúkdómar og dauði, hafði minnkað gríðarlega. Annað skref sem þar var síðan stigið var að fólki var gert betur kleift að fá meðferðarúrræði ef það var tekið með neysluskammta. Það hætti að vera glæpur að vera með neysluskammta, en þó, ef fólk var tekið með neysluskammta var hægt að taka þá af því og vísa því fyrir framan hóp sérfræðinga sem ráðlagði því og beindi inn á þá braut að geta komist út úr fíkninni og farið að fóta sig í lífinu.

Við vinnslu þessarar tillögu okkar töluðum við m.a. við aðila sem eru í The Global Commission on Drug Policy, sem er hópur sem Kofi Annan, fyrrum aðalritari Sameinuðu þjóðanna, er í forsvari fyrir. Þar var kona sem var fyrrverandi forseti Sviss og hún leiddi okkur í sannleikann um það hvernig þeir hefðu þar í landi m.a. veitt fólki neysluskammta á öruggum svæðum, öruggum stað þar sem það gæti neytt þeirra. Og niðurstöðurnar eru alls staðar þær sömu: Það er minni skaði af neyslu þessara efna en annars og neyslan fer ekki upp.

Þetta er stórkostlegur sigur í stríðinu gegn þeirri þjáningu sem óhófleg neysla fíkniefna veldur. Og ég er mjög þakklátur fyrir að við séum komin hingað.