149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

taka gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóður.

710. mál
[14:34]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta framsögu í þessu máli og fagna framlagningu þess. Umræðan sem kjarni málsins snýr að, gjaldtaka á fiskeldi, er mjög mikilvæg og mikilvægt að þingið gefi sér góðan tíma, og atvinnuveganefnd einnig eftir atvikum, í að skoða heppilegustu leiðirnar í þeim efnum.

Ég hlýt að byrja á því að fagna því sérstaklega að hæstv. ráðherra hafi valið traustan og góðan gjaldmiðil sem viðmiðið í gjaldtökunni, þar sem gert er ráð fyrir að gjaldtakan fari fram í evrum. (Sjútvrh.: Vildirðu fá þetta í krónum?) Ég hlýt að byggja vonir til þess að þetta sé fyrsta skref stjórnvalda í að taka upp alvörugjaldmiðil í þjóðfélaginu og fagna því mjög þessu skrefi, þótt lítið sé.

En það má velta ýmsum þáttum fyrir sér í þessu. Mér finnst nálgunin að gjaldtökunni að mörgu leyti áhugaverð. Hún er þá með einhverjum hætti afkomutengd eða tengd verðþróun á mörkuðum að færeysku fordæmi, eins og ráðherra kom inn á. Hún er tiltölulega einföld og skýr. Þess ber að geta í þessu samhengi að það er mjög eðlilegt og raunar mikilvægt í mínum huga að það sé gjaldtaka af fiskeldinu. Þetta er á endanum nýting á takmarkaðri sameiginlegri auðlind, þó að vissulega sé það aðeins öðruvísi en í sjávarútvegi að því leytinu til að þetta á auðvitað meira skylt við landbúnað. Hér er um fiskeldi eða ræktun að ræða. En engu að síður er það nýting á takmarkaðri og sameiginlegri auðlind landsmanna sem eru auðvitað þau hafsvæði sem henta til eldis.

Það ber líka að hafa í huga að rekstrarleyfi fiskeldisfyrirtækja eru tímabundin, til 10 ára í senn að hámarki. Sú hugsun er áleitin, og hlýtur að koma til skoðunar í meðhöndlun nefndarinnar, hvort heppilegt gæti verið að þróa þetta gjaldtökukerfi yfir í einhvers konar útboðsfyrirkomulag, að aðilum sé heimilt að bjóða í rekstrarleyfið sjálft, það sé þá ekki bara „fyrstur kemur, fyrstur fær“, eins og núverandi fyrirkomulag er í raun og veru, heldur að gjaldtaka og rekstrarleyfi geti með einhverjum hætti farið saman og runnið til hæstbjóðenda. Það gæti verið álitlegt að skoða það og er í takti við meginniðurstöður auðlindanefndar á sínum tíma, að nýtingarleyfi sem þessi séu tímabundin og að gjald komi fyrir, sem m.a. getur verið í formi markaðslausnar, líkt og gæti verið heppilegt í sjávarútvegi.

Ég staldra aðeins við þann langa tíma sem tekinn er í innleiðingunni, að gjaldtakan er þrepuð inn á sjö árum. Ég ætla svo sem ekki að leggja neinn dóm á það. Þetta er eitt af því sem hlýtur að koma til vandaðrar skoðunar í meðhöndlun nefndar hvort nauðsynlegt sé að gera þetta yfir þetta langt tímabil eða ekki. Það er alveg rétt að við erum skammt á veg komin í samanburði við frændur okkar Færeyinga enn sem komið er, en reynsla Færeyinga sýnir okkur hins vegar líka að arðsemi fiskeldisins þegar það kemst á legg virðist vera allnokkurt. Í raun er fyrirmyndararðsemi fiskeldis þar í landi og ekkert óeðlilegt við að innþrepun sem þessi taki þá eitthvert mið fram á veginn af því hvernig eldinu hér vindur fram, þ.e. sem snýr að afkomu þess.

Mér finnst líka áhugaverð nálgunin varðandi fiskeldissjóðinn, sem er reyndar í takt við hugmyndir okkar í Viðreisn um auðlindagjöld almennt, að þau nýtist með einhverjum hætti til uppbyggingar í heimabyggð. Hér er vísir að slíku kerfi og vafalítið full ástæða til að skoða vandlega með hvaða hætti það er útfært, hvernig tryggt er að þau sveitarfélög sem fyrir mestum áhrifum verða af eldinu njóti stuðnings o.s.frv. Ýmis álitaefni eru þar uppi. En ég fagna skrefinu sem í þessu felst og tel að það sé mjög jákvætt og mjög mikilvægt að nágrannabyggðarlög, sem verða óhjákvæmilega fyrir miklum áhrifum af hraðri uppbyggingu atvinnustarfsemi sem þessarar, njóti með einhverjum hætti hlutdeildar í þeim tekjum sem af henni hljótast.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu mjög langa. Ég hlakka til áframhaldandi umfjöllunar þingsins um þetta mál. Það er í mínum huga grundvallaratriði þegar kemur að gjaldtöku af auðlindanýtingu sem þessari. Ég fagna því að við tökum þessa umræðu af alvöru tiltölulega snemma í ferlinu. Ég held að það sé einmitt mjög mikilvægt að við vörumst þau mistök sem við höfum áður gert í þessum efnum, að detta strax í einhverjar skotgrafir með umræðu um hvernig þetta eigi eða megi alls ekki vera o.s.frv., heldur tökum höndum saman um að finna góða leið sem staðist getur tímans tönn.

En auðvitað má ekki hrófla við því að gjaldið verði tekið í evrum. Það er mjög traustur og góður gjaldmiðill.