149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

loftslagsmál.

[15:45]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Þessi umræða er alltaf að dýpka og það er gott. Við stöndum sameinuð á Alþingi um loftslagsmálin. Það er gott. Ég ætla að halda áfram að hvetja til umræðna af þessu tagi og óska eftir stöðufærslum frá hæstv. umhverfisráðherra þangað til við förum að sjá saxast allverulega á þær milljónir tonna sem við losum árlega á Íslandi, bæði innan og utan ETS-kerfisins.

Það er rétt sem kom fram í umræðunni, raforkunotkun eykst töluvert þegar við færumst t.d. yfir í rafbíla. En þessi sama orka er í notkun í dag og ekki í formi rafmagns heldur efnahvarfa sem koma til vegna bruna jarðefnaeldsneytis. Það er orka sem hefur verið föst ofan í jörðinni í tugi milljóna ára. Jörðin þolir ekki að við losum þetta. Það er forvitnilegt að hugsa til þess að það er auðveldara að hugsa um umfang orku sem þarf að nýta þegar virkja þarf fyrir henni en þegar við dælum því hreinlega á bensínstöð.

Mjög góðar ábendingar komu fram um lífríkið, landbúnað, sjávarútveg, atvinnulífið og samgöngumál og líka góð gagnrýni á grundvöll hagkerfisins. Ég vona að ríkisstjórnin taki þetta allt til sín og vinni með þær hugmyndir sem fram komu.

Forseti. Píratar hafa undanfarið unnið að tillögum að grænum sáttmála sem kallast á ensku, með leyfi forseta, „Green New Deal“. Það heyrist að Samfylkingin hefur líka gert það og eflaust fleiri flokkar. Það eru allir að hugsa á þessum nótum um þessar mundir, sem betur fer. Sumir hafa líka rambað á sama nafn, græna sáttmálann. Mér finnst þetta flott nafn en nú er kannski komið tækifærið sem við vorum ekki búin að gera okkur grein fyrir til að búa til djúpstæðari pólitískan sáttmála en nokkurn hafði grunað. Ég vona að við getum átt frekara samtal um það.

Til lengri tíma litið erum við ekki bara að keppast við að ná alþjóðlega pólitískt þolanlegum markmiðum, heldur að núlla út koltvísýringslosun okkar annars vegar, að ná koltvísýringsmagni í andrúmsloftinu aftur niður fyrir 300 ppm og að tryggja líffræðilegan (Forseti hringir.) fjölbreytileika. Heimsbyggðin þarfnast þess að sameinast um að taka frá helminginn af yfirborði jarðar fyrir náttúruna.

Ég hlakka til að takast á við þetta með ykkur og þakka fyrir góða umræðu.