151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

kostnaður við hertar sóttvarnaaðgerðir.

[13:27]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að vísa til efnahagslegrar úttektar á sóttvarnamálum sem við höfum gefið út, reyndar í tvígang, fyrsta skýrslan kom út síðastliðið haust og svo kom önnur í kjölfarið, þar sem við færum einmitt rök fyrir því að óumdeilanlega sé skynsamlegt að hefta möguleika veirunnar til að komast inn í landið og beita um leið sóttvarnaaðgerðum innan lands eftir aðstæðum hverju sinni til að verja efnahagslífið. Hvað kostar þessi heimsfaraldur? Það eru margir mælikvarðar, það fer eftir því hvaða leið við notum. Við getum skoðað afkomu í ríkisfjármálum. Við getum sett marga mælikvarða á þetta. Mig langar bara til að segja að við Íslendingar höfum á margan hátt verið leiðandi í útfærslum, t.d. varðandi tvöföldu skimunina, aðferðafræði sem margir tóku upp eftir að við höfðum innleitt hana hér á landi. Við vorum sömuleiðis snemma í því að opna fyrir bólusetningarvottorð eða sönnun um fyrra smit og einfalda skimun í tengslum við það sem leið inn í gegnum landamærin. Það hefur reynst ágætlega. Við erum algerlega í fremstu röð í smitrakningu og skilningi á því hvernig veiran dreifist innan lands. Það er því margt um það að segja hvaða leiðir við höfum farið og hvaða árangri þær leiðir hafa skilað. Ég vil halda því til haga að við höfum á suma vegu verið í ákveðnu brautryðjandastarfi í landamæraaðgerðum okkar og þær hafa skilað miklum árangri.

Mig langar til að velta því upp fyrir síðari ræðu hv. þingmanns hvort hann sé að velta fyrir sér hvort við gætum skapað ástand þar sem væri engin veira innan lands þannig að við gætum fellt niður allar hömlur. (Forseti hringir.) Er það rétt skilið hjá mér að hann sé með það draumasamfélag í huga?