151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

kostnaður við hertar sóttvarnaaðgerðir.

[13:29]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Bara svo ég svari spurningu hæstv. ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum. Veirufrítt samfélag — við vitum hvað hefur verið gerlegt hingað til. Við náðum ágætu sumri í fyrra af því að við náðum faraldrinum niður. Við náðum að fletja kúrfuna, eins og það heitir. Það er hægt að gera það. Við vitum það. Við höfum reynslu af því og höfum gert það a.m.k. tvisvar. Það er það sem hægt er að gera. Og þá er hægt að létta á sóttvarnaaðgerðum innan lands, það er raunveruleiki.

Staðan er þessi: Það þarf að herða á landamærunum. Sóttvarnayfirvöld eru alveg skýr í því að það þarf að herða á landamærunum ef við eigum að geta létt á takmörkunum hér innan lands. Það er þess vegna sem farið var af stað með PCR-próf á brottfararstað til að meta hvort hægt væri að fara í litakóðunarkerfið. Núna eru forsendurnar bara brostnar og staðreyndirnar sýna okkur að ekki eru forsendur fyrir því af því að fólk skilar sér ekki í sóttkví. (Forseti hringir.) Fólk sem þurfti að fara í sóttkví skilaði sér ekki og forsendurnar eru brostnar ef við ætlum að hlusta á sóttvarnayfirvöld. En aftur, bara einföld spurning: Hvað hefur faraldurinn kostað ríkissjóð fram að þessu? Hæstv. fjármálaráðherra hlýtur að vita það.