151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

hertar aðgerðir og markaðssetning Íslands.

[13:32]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég verð að játa að ég er örlítið ringlaður eftir gærdaginn og vísa þar til blaðamannafundar sem var haldinn í Hörpu þar sem boðað var frumvarp sem var lagt fram í gærkvöldi um hertar sóttvarnir á landamærum. Á sama tíma sá maður í fjölmiðlum að gosið í Geldingadölum var tekið að falla niður húsveggi á Times Square þar sem verið var að hvetja erlenda ferðamenn til að sækja Ísland heim. Ég velti fyrir mér hvernig það geti farið saman að hvetja ferðamenn til að koma í auknum mæli til landsins og að herða á sama tíma eftirlit á landamærunum. Í greinargerð frumvarpsins sem var lagt fram í gærkvöldi segir, með leyfi forseta:

„Reynslan af Covid-19 faraldrinum sýnir að það nægir að einn einstaklingur virði ekki reglur um sóttkví eftir komuna til landsins til að hrinda af stað stórri hópsýkingu og jafnvel nýrri bylgju faraldurs.“

Ég velti fyrir mér og vil spyrja hæstv. ferðamálaráðherra að því hvort hann óttist ekki að þetta geti skapað gloppur í sóttvörnum sem leiði til þess að aftur þurfi að taka upp harðari takmarkanir hér á landi og lama ferðaþjónustuna innan lands og setja miklar skorður við líf almennings. Ef hæstv. ráðherra gæti hjálpað mér að skilja betur hvernig þetta tvennt getur farið saman.