151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

hertar aðgerðir og markaðssetning Íslands.

[13:34]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Fyrst varðandi það atriði sem hv. þingmaður kom inn á í upphafi fyrirspurnar, auglýsingu á Times Square þar sem sýnd er mynd af gosinu, þá er það auglýsing sem Icelandair ákvað að birta og er bara auglýsing fyrirtækisins á þessum stað. En við höfum tekið frá fjármuni til að setja í markaðssókn og ákváðum það fyrir töluverðu síðan. Við erum að nýta þá fjármuni, t.d. með því að mæla áhuga og ferðavilja. Við erum í ákveðinni herferð til að tryggja að Ísland sé í undirmeðvitund fólks og fólk sé að skoða Ísland sem mögulegan áfangastað, að hluta til þegar þar að kemur og að hluta til kannski á næstunni. Við sjáum að Evrópumarkaður var áður líklegri til að taka fyrr við sér en Bandaríkjamarkaður sem gert var ráð fyrir að kæmi inn síðar. Núna hefur það snúist við. Það hangir augljóslega að miklu leyti saman við stöðu bólusetninga þar í landi. Verið er að sækja á Bandaríkjamarkað vegna þess að fólk þar er tilbúið til að ferðast með bólusetningarvottorð. Nýjar aðgerðir og breytingar sem eru áformaðar á landamærum snerta ekkert það fyrirkomulag sem við erum með varðandi bólusetningarvottorð og vottorð um mótefni. Þar er sú regla að það er einföld skimun á landamærum. Það hefur gengið vel og ekkert smit komið þar upp það sem af er þeim tíma. Næstu vikur eru vissulega rólegar en vonandi verður sumarið með einhverju frekara lífi, sérstaklega þegar kemur að ferðamönnum með bólusetningarvottorð sem er þá allt annars eðlis út frá sóttvörnum (Forseti hringir.) en annars. Kerfið sem við höfum komið upp er öruggt og nokkuð tryggt og ég vonast til að sumarið verði mjög gott fyrir (Forseti hringir.) okkur Íslendinga á ferðalögum en sömuleiðis ákveðinn hóp ferðamanna.