151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[15:42]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Björtu tíðindin eftir blaðamannafund gærdagsins eru að við gætum, samkvæmt þeirri afléttingaráætlun sem við sáum glitta í, verið að horfa til þess að endurheimta hið fyrra eðlilega líf í lok júnímánaðar. Ég held að svoleiðis áætlun sé okkur öllum mikilvæg hvatning og að það sé mjög þýðingarmikið að hún liggi núna fyrir. Hún er auðvitað sett fram í samhengi við bólusetningar og er, eins og allt annað á tímum Covid, eðlilega með fyrirvara. Ekkert orð notum við jafn oft í Covid og orðið fyrirvari. Áætlunin er eðlilega með fyrirvara um að viðmið um bólusetningar gangi eftir. Við höfum kallað eftir áætlun sem þessari hér í þingsal og í umræðunni í langan tíma og mér finnst gríðarlega gott að hún sé fram komin því að ég held að það skipti svo miklu, nú þegar við erum farin að sjá til lands, að ramma það inn hver skrefin eru og hvenær þau verði stigin. Ég ætla að hrósa ríkisstjórninni fyrir það að hafa stigið það skref að birta áætlun sem þessa. Á tímum Covid mætti kannski orða það sem svo að einhver fyrirsjáanleiki sé það sem hægt er að biðja um en við vitum auðvitað öll hversu þýðingarmikið þetta er fyrir fyrirtæki í rekstri og hvaða þýðingu þetta hefur fyrir fólkið í landinu og fyrir þau fyrirtæki sem hafa bókstaflega lamast í faraldrinum. En ég held að það hafi líka mjög mikla þýðingu sálrænt og sé ákveðinn lykill að samstöðu núna á lokametrunum að við fáum að sjá í mark og sjá í land.

En af því að stjórnarandstöðuþingmaður getur ekki leyft sér að koma hérna upp og bara hrósa þá myndi ég vilja segja að ég hefði viljað sjá þessa áætlun ögn skýrari, t.d. um hvaða hlutfall þarf að hafa fengið bólusetningu, við hvaða aldur sé miðað nákvæmlega. Ég hef nefnt það áður í þingsal að stjórnvöld í Danmörku og Noregi hafa þegar birt slíkar áætlanir. Danir hafa sagst ætla að taka ákveðin skref í þessum efnum þegar bólusetningu allra 50 ára og eldri verður lokið. Norðmenn hafa kynnt áætlun sem tekur gildi í skrefum og hafa útskýrt hver þau skref eru, hvaða markmiðum þurfi að ná til júníloka.

Ég vonast til þess að við fáum að heyra það hér í dag af hálfu stjórnarinnar hverjar vörðurnar að markinu séu og nánari útskýringu á þessari áætlun. Við hvaða hlutfall bólusettra verður t.d. miðað eða við hvaða aldursmark? Við sáum í glærukynningu í gær að fyrir lágu ákveðin töluleg markmið um það hvenær við teljumst ná þeim punkti, ég man ekki hvert orðalagið var, að stór hluti fullorðinna verði bólusettur. Hvað er stór hluti og hverjir eru fullorðnir? En ég var mjög ánægð með að sjá tímalínu bólusetninga í glærukynningu stjórnarinnar í gær svo ég ætla að leyfa mér að vera björt og glöð og jákvæð hvað þetta varðar í dag.

Ég er einlæglega sammála hæstv. heilbrigðisráðherra hvað það varðar að samstaðan er þýðingarmikil og er í reynd forsenda árangurs. Þess vegna skiptir svo miklu að sá fyrirsjáanleiki sem þó er hægt að veita sé veittur, þess vegna skiptir svo miklu máli að stjórnvöld séu skýr um þau atriði sem þau geta verið skýr um og þess vegna skiptir svo miklu að stjórnvöld gangi í takt. Það situr dálítið eftir í dag hvort svo sé, eins og ég nefndi í andsvörum rétt áðan. Þegar frumvarpið er skoðað, þessi stutti bandormur um breytingu á sóttvarnalögum annars vegar og útlendingalögum hins vegar, þá virðist manni skýrt að markmiðið sé að taka fyrir leka á landamærum með því að fara inn í þessa tvo lagabálka með tilteknum aðgerðum en síðan fylgja reglugerðarheimildir tveggja ráðherra um útfærsluna, heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra. Frumvarpið veitir dómsmálaráðherra heimild í þennan takmarkaða tíma til þess að banna útlendingum frá ákveðnum áhættusvæðum að koma til landsins þrátt fyrir að þeir uppfylli almenn komuskilyrði. En þegar maður skoðar síðan reglugerðina þar sem talið er upp í ótal mörgum liðum til hvaða útlendinga þessi reglugerð taki ekki, þá er niðurstaðan aðeins önnur. En ég vona að við fáum frekari skýringar á því hvort þetta sé hugsunin þarna að baki.

Varðandi frumvarpið sjálft og það sem hér er verið að gera þá skiptir í mínum huga máli að hér er um tímabundið úrræði að ræða sem sett er fram til að verja heilsu og líf fólks. Þetta er auðvitað ákveðin lagaleg jafnvægislist að ætla að verja þessa grundvallarhagsmuni, heilsu og líf fólks. Það er ekki bara svo að stjórnvöld geti gert þetta, þau hafa ákveðna skyldu til þess, ákveðna frumkvæðisskyldu til að verja þessa mikilsverðu hagsmuni en á þeim hvílir jafnframt sú skylda að gera það ekki með því að ganga of langt á önnur grundvallarréttindi fólks. Þess vegna skiptir svo miklu máli að við verjum þennan samfélagssáttmála sem við höfum sett okkur um það hvernig lögin í landinu eru sett, hvernig stjórnvöld fara með völdin og að við stöndum í lappirnar með það vald og valdmörk og að leikreglur séu skýrar. Mér finnst sjálfri nokkuð ljóst að hér séu augljóslega málefnaleg sjónarmið að baki. Mér finnst þessi leið líta þokkalega út að teknu tilliti til allra aðstæðna og að hér sé verið að reyna að milda þessa aðgerð með því að tímabinda hana. Við fyrstu sýn myndi ég segja að mér finnist þetta líta þokkalega út.

Ég myndi í lokin vilja segja að í upphafi, fyrir rúmu ári þegar við fórum af stað, hafi samstaða verið leiðarstefið og samkennd og að það ætti að vera markmið okkar allra að þegar við erum komin í mark uppi á toppi fjallsins þá getum við sagt saman að okkur hafi tekist að fara í gegnum þennan faraldur með þessi tvö orð, samkennd og samstöðu, sem leiðarljós. Síðan verður það þannig að vorið kemur og heimur hlýnar.