Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslands.

514. mál
[14:56]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Landhelgisgæslan á ríkan sess í huga landsmanna sem treysta henni best allra opinberra stofnana í landinu. Þetta traust hefur Landhelgisgæslan áunnið sér með góðum verkum og öguðum vinnubrögðum og það er ekkert endilega sjálfsagt að svona mikið traust ríki til stofnunarinnar enda vandasamt verk sem þetta embætti innir af hendi. Okkur ber skylda til þess og stjórnvöldum ber skylda til þess að hlúa að þessum öryggisþætti, þessari grunnþjónustu okkar og tryggja að Gæslan geti sinnt þeim störfum sem henni hafa verið falið. Það kemur fram í ágætri skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem við erum hér að fjalla um í dag, um Landhelgisgæsluna að það þurfi að gera raunhæfar áætlanir um fjárfestingar og rekstur loftfara Gæslunnar svo að viðunandi björgunargeta sé tryggð. Þetta er, frú forseti, að mínu mati algjört lykilatriði, að björgunargetan sé tryggð. Til þess erum við jú að þessu. Í samhengi held ég að við þurfum að velta fyrir okkur hvort það sé nóg að tryggja lágmarksviðbragð. En við þurfum líka að rannsaka gaumgæfilega hvort það sé nauðsynlegt að auka björgunargetuna enn frekar og hvort það sé rétt að fela Gæslunni formlegra og stærra hlutverk þegar kemur að þjónustu, sjúkraflutningum á lofti, legi og landi, af því að lágmark er ekki endilega nóg. Það verður að vera tryggt að svona öryggistæki virki með fullnægjandi hætti, alltaf þegar á reynir. Við sjáum það bara á síðustu árum að það hafa komið upp fjöldamörg tilvik þar sem svo hefur ekki verið og það er eiginlega alveg óboðlegt, af því að við treystum því að þegar við þurfum á því að halda þá sé þetta öryggistæki okkar viðbúið. Við sjáum ákall eftir sjúkraþyrlu á Suðurlandi þar sem nú á að setja af stað tilraunaverkefni og er það vel og það eru sterk rök fyrir því að á Suðurlandi sé ávallt staðsett þyrla fyrir sjúkraflutninga og björgun þegar á þarf að halda, ekki síst vegna gríðarlegrar umferðar ferðamanna sem þekkja kannski illa það umhverfi, þá náttúru sem þar er. En það er líka mikilvægt að skoða þann möguleika að setja upp starfsstöð fyrir þyrlu á Norður- og Austurlandi af því að þar, á þeim hluta landsins, er stór hluti íslenska flotans staddur. Eins gæti slík starfsstöð stytt viðbragðstíma til muna þegar kemur að sjúkraflutningum á landi. Við vitum öll að hver einasta mínúta getur skipt máli þegar slys ber að höndum. Þá skiptir líka máli að þyrlurnar séu ekki allar á sama stað. Um þetta hafa verið skrifaðar margar skýrslur en málið hefur aldrei náð upp úr einhverjum hjólförum. Við höfum aldrei náð að taka þessa umræðu alla leið og það er mikilvægt að við gerum það, að við ræðum hvað það kostar að gera ekki hlutina, að gera of lítið. Það er eitthvað sem ég vil alltaf ræða hér þegar við erum að tala um t.d. heilbrigðisþjónustuna. Hvað kostar það okkur að gera of lítið? Hvað kostar það okkur að gera of lítið í öryggis- og varnarmálum sem Landhelgisgæslan sinnir? Hvað kostar það í varanlegu heilsutjóni eða jafnvel mannslífum þegar öryggisnetið okkar brestur? Við sjáum að grunnheilbrigðisþjónusta úti á landi er verulega vanfjármögnuð og ekki síður vanmönnuð. Því er nauðsynlegt að fólk um allt land eigi þess kost að komast svo fljótt sem verða má undir nauðsynlegar læknishendur. Þess vegna verðum við að stytta viðbragðstíma Gæslunnar, til að hjálpa öllum landsmönnum. Það myndi auðvitað kalla á styrkingu flugflota Gæslunnar, aðallega þyrlna sem þyrftu að vera af stærð sem hentar, t.d. með hliðsjón af reynslu nágrannaþjóðanna. Við eigum alveg að þora að bera okkur saman við nágrannalönd okkar. Þó að það sé dýrara samkvæmt höfðatölu þá er það samt þannig að við þurfum að hafa lágmarksgrunnþjónustu. Það er reynsla og þekking fyrir hjá Landhelgisgæslunni og það er mjög gott og það eru alveg möguleikar líka til hagræðingar. En það er líka möguleiki að samnýta betur þá þjónustu sem er fyrir hendi.

Að mati Ríkisendurskoðunar hafa viðmið í fyrirliggjandi drögum að landhelgisgæsluáætlun um viðbragðsgetu, æskilegt úthald og tækjakost Landhelgisgæslunnar ekki verið í samræmi við forsendur fjárlaga og fjármálaáætlana. Því er hún að mati Ríkisendurskoðunar óraunhæf í því ljósi. Við sjáum þetta líka allt of víða hjá hinu opinbera. Það er ekki nóg að hafa bara glæsta áætlun, heilbrigðisáætlun, geðheilbrigðisáætlun, áætlun um þjónustu við eldra fólk o.s.frv. ef það er ekki vilji hjá stjórnvöldum til að tryggja þessa grunnþjónustueiningar okkar fái fjármagn til að geta sinnt sínum lögbundnu skyldum. Það geta ekki alltaf allir bara hlaupið hraðar og það er ekki hægt að ætlast til þess að vélar og tæki sem eru úr sér gengin virki. Þá skapast hætta. Dómsmálaráðuneytið hefur á undanförnum árum fyrirhugað að leggja fram opinberlega landhelgisgæsluáætlun þar sem skilgreint verði öryggis- og þjónustustig Landhelgisgæslunnar ásamt því að lagt verði mat á kostnað og fjárfestingarþörf. Það er engin slík áætlun núna sem má segja að sé miðuð við daginn í dag, þær hafa ekki verið fullunnar og síðasta útgáfa er frá 2018. Þarna þurfum við að gera betur og um það erum við ríkisendurskoðandi sammála.