Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

almenn hegningarlög.

389. mál
[16:36]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Frú forseti. Það er mér einkar gleðilegt að standa hér í þessu mikilvæga máli. Ég var ekki sjálf í þeirri nefndarvinnu sem hélt á málinu en það er auðheyrt á þeim aðilum sem hér hafa talað um þá vinnu að hún gekk vel og var unnin í mikilli sátt og auðheyrt að þar var líka verið að vinna með vandað og gott efni þannig að nefndin gat samþykkt það allt saman. Þetta er eitt af þeim augnablikum þar sem það er hvað skemmtilegast að standa í þessari pontu og líða eins og við gerum stundum eitthvert gagn í þessu ágæta húsi.

Frumvarpið kveður meðal annars á um að refsirammi fyrir barnaníð verði hækkaður úr tveggja ára hámarksfangelsi í sex ár að hámarki. Eins og fjallað er um í greinargerð með frumvarpinu er þessi breyting til samræmis við það sem þekkist í löndunum í kringum okkur. Rökin fyrir breytingunni eru þó ekki aðeins að halda í við réttarþróun erlendis, þau eru heldur ekki aðeins bundin við að styrkja réttarvernd barna heldur felur frumvarpið einnig í sér mikilvæg refsipólitísk skilaboð um stafrænar birtingarmyndir kynferðisofbeldis gegn börnum. Samhliða hinni stafrænu samfélagsbreytingu sem hefur haft umbyltandi áhrif á íslenskt samfélag eins og önnur hafa börn og ungmenni tekið tæknina í sínar hendur með föstum tökum. Þetta felur í sér mikil tækifæri fyrir einstaklinga og samfélag enda líklegt að hugvit, nýsköpun og tæknifærni verði burðarásar hagkerfis og þá ekki síst til framtíðar. Við verðum hins vegar að tryggja öryggi barna. Tölfræði ríkislögreglustjóra um kynferðisbrot sýnir sömu þróun og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum; að börn verða í auknum mæli fyrir stafrænum birtingarmyndum kynferðisofbeldis. Löggjöfin nú tekur ekki nægilegt mið af þessari stöðu og þeim alvarlegu afleiðingum sem brot af þessum toga geta haft í för með sér fyrir þolendur.

Umsagnaraðilarnir í þinglegri meðferð eru sammála um að málið sé mikilvægt framfaraskref og þingnefnd hefur afgreitt málið með tillögu um að það verði að lögum án breytinga. Ég fæ því, forseti, að lýsa aftur yfir gleði minni yfir þessu máli og óska okkur öllum til hamingju með það.