152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

almenn hegningarlög.

389. mál
[17:41]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég held að það sé hjálplegt að staldra aðeins við það sem kom fram í síðasta andsvari hjá hv. þm. Lenyu Rún Taha Karim, þetta með svínshausana. Það er mjög eðlilegt að lögreglan átti sig á því af hverju þetta er alvarlegt, hvernig þetta er alvarlegt og átta sig á því að þessi athöfn, sem er ekkert ólík því að nota orð, er í rauninni alvarlegri en lögreglan gerir sér grein fyrir af því að hún hefur þetta þrönga sjónarhorn sem hún deilir ekki með minnihlutahópum í heild sem hatursorðræða er yfirleitt gagnvart. Það er kannski lykilvandinn í þessu, þetta er illa framfylgjanlegt ef lögreglan er ekki með á nótunum í heildina litið. Það sést á málum sem komið hafa upp hérna nýlega þar sem voru Punisher-merki og Thin Blue Line-merki og þess háttar. Ég tel að ég þurfi ekki að þýða þessi orð því að þetta eru ákveðin merki. Sami strákur var handtekinn hérna nokkurn veginn tvo daga í röð út af lélegum lýsingum lögreglu, lýsingum sem eru yfirleitt lélegar. Þegar lögreglan er að lýsa eftir fólki er yfirleitt birt bara einhver ein mynd, stutt lýsing og það látið duga. Almennt séð er það ekkert rosalega hjálplegt fyrir fólk svo það geti greint menn í sundur. Það er kannski tiltölulega auðvelt fyrir mig að greina hv. þingmenn Loga Einarsson og Gísla Rafn Ólafsson í sundur, en fyrir ýmsa aðra er það ekkert endilega mjög auðvelt. Við lærum að greina fólk í sundur miðað við þau andlit og líkamsbyggingu og þess háttar sem við ölumst upp við. Það er mjög þekkt að við greinum illa í sundur fólk frá öðrum svæðum í heiminum. Að sama skapi greinir fólk frá öðrum stöðum í heiminum okkur illa í sundur. Það er bara sálfræðileg staðreynd. Þetta er eitthvað sem lögreglan þarf að hafa sérstaklega í huga á nákvæmlega sama hátt og hún þarf að hafa í huga hvað það þýðir að henda svínshaus inn á svæði mosku. Það þýðir ekkert endilega það sem lögreglan heldur að það þýði, það þarf að skoða samhengi hlutanna, sjónarhorn allra þarna, sérstaklega þeirra sem athöfnin beinist að. Hatursorðræðan beinist að fólki.

Hér hef ég gert smá greinarmun á nokkrum hópum fólks sem annaðhvort eru þolendur hatursorðræðu, notendur hatursorðræðu eða þau sem eiga að passa upp á hatursorðræðu, þ.e. að koma í veg fyrir hana. Þar hef ég nefnt opinbert vald. Orð þeirra sem fara með opinbert vald, þ.e. orð opinberra persóna, hafa meira vægi en orð annarra. Svo eru bara almennir borgarar, Jón og Gunna og Regn úti í bæ en ekki séra Jón eða séra Gunna eða séra Regn.

Það skiptir máli um hvern er að ræða þegar hatursorðræða er annars vegar. Það má taka sem dæmi hvernig lögreglan fór með þessi mál sem ég nefndi hérna áðan. Það má líka fara með það hvernig handhafar opinbers valds, þingmenn stjórnarflokkanna, flokkuðu ákveðin ummæli séra Davíðs Þórs Jónssonar sem hatursorðræðu þrátt fyrir að þau væru það augljóslega ekki. Það er misnotkun á því orði. Það er, ef eitthvað er, alvarlegra en hatursorðræðan sjálf því að það gerir lítið úr þeim alvarlega glæp. Það er skiljanlegt að hatursorðræða sé glæpur. Það hefur umturnað samfélögum að leyfa það að hatursorðræða vaði uppi út um allt og þá sérstaklega hatursorðræða sem er knúin áfram af opinberu valdi, síður hatursorðræðan sem er hjá almennum borgurum. En nú búum við hins vegar í þannig samfélagi þar sem einhvern veginn allt og allir eru fjölmiðill út af fyrir sig með samfélagsmiðlum og þess háttar. Hatursorðræða almennra borgara var áður ekkert rosalega alvarleg sem slík af því að hún náði ekki lengra, hún var ekki almenn og mátti augljóslega gefa smá frelsi gagnvart tjáningunni því að hún hafði ekkert að segja. Í dag hins vegar, á vettvangi samfélagsmiðla þar sem allir taka sér ákveðið ritstjórnarvald á því sem þeir deila, hefur það meiri áhrif. Þar eru deilingar og endurtekningar og læk og „thumbs up“, gefin ánægjumerki við orð annarra sem dreifast allt í einu út um allt eins og eldur í sinu. Það breytir dálítið ábyrgð þeirra sem leggja orð út í samfélagsmiðlaheiminn miðað við hvernig það var áður. Þetta eru varanleg orð, ekki orð eins og þau voru áður, bara sögð í tíma og rúmi og gleymdust meðal þeirra sem þar voru og þurfti að vitna í að þessi hafi sagt þetta og hitt. Þá eru þetta orðnar Gróa á Leiti-sögur, ekki með sama vægi og núna þegar hægt er að sýna fram á að þessi sagði þetta nákvæmlega þá og þarna. Þau orð eru til og lifa, hafa meiri áhrif þrátt fyrir að fólk sé bara almennir borgarar. Orðin hafa enn þá meiri áhrif ef þetta eru opinberar persónur, þau hafa enn þá meiri áhrif og meiri ábyrgð og meiri afleiðingar ef opinbert vald fer með slík orð. Þar sjáum við bara einföld dæmi að undanförnu: Það var moskumálið í borgarstjórnarkosningum fyrir nokkrum árum síðan. Þar er pólitíkin viljandi að stíga út í það að gera upp á milli hópa og reyna að öðlast pólitískt vald með því að níðast á minnihlutahópum. Það er hatursorðræða samkvæmt allri skilgreiningu þess orðs og er sérstaklega alvarlegt mál.

Ég vara aðeins við því að þegar við setjum svona lög þá gefum við valdhöfum, gefum við framkvæmdarvaldinu, lögreglu og fleirum tæki til þess að beita valdi. Við höfum séð að stjórnvöld misnota vald, eins og dæmið sem ég notaði áðan um það þegar stjórnarþingmenn misnota í rauninni orðið hatursorðræða. Það væri gríðarlega mikil misnotkun ef valdhafar færu að misnota þessi lög til þess að ofsækja minnihlutahópa í rauninni að ósekju með því að segja að þau séu að beita hatursorðræðu og fylgja því eftir. En þannig eru náttúrlega stjórnvöld sem misbeita valdi yfirleitt, þau nota hvaða tylliástæðu sem er til að misnota vald, sem er ekki gott. Hliðstætt dæmi hérna á þingi er t.d. þegar við vorum að reyna að koma á siðareglum þingmanna. Svo þegar loksins kemur að því að við vorum að reyna að benda á mögulega spillingu hérna, þá voru þeir sem bentu á spillinguna skammaðir. Það er misnotkun á þeim tilgangi sem siðareglur eru settar út frá. Það er alltaf varhugavert. Í því lýðræði sem við höfum veljum við líka þau sem misnota vald, sem er náttúrlega slæmt, en þannig virkar því miður lýðræðið. Svo lengi sem lýðræðið helst hins vegar þá er alla vega alltaf möguleiki á að skipta um skoðun. En þarna er samt mikilvægur hlutur í því að lýðræði minnihlutahópa skiptir auðvitað máli því að í lýðræðissamfélaginu sem við búum í hérna þá er lýðræði minnihlutahópa minna en annarra. Þess vegna reynum við að setja í lög, og sérstaklega í stjórnarskrá, vernd og réttindi minnihlutahópa. Þar býr lýðræði minnihlutahópa sérstaklega. Það eru í rauninni bara stjórnarskrárbundin réttindi til þess að meirihlutavaldið geti ekki níðst á minnihlutahópum sjálfum sér til framdráttar.

Ég vildi klára þetta aðeins með almennu þróuninni á undanförnum áratugum, það er þessi svokallaði PC-ismi eða pólitísk rétthugsun. Þetta er þó nokkuð gamalt hugtak, nokkur hundruð ára gamalt, 200–300 ára, eitthvað svoleiðis, og hugmyndin er alveg örugglega eldri en þetta hugtak. Nýjasta ítrun þess hugtaks, frá því að Bush yngri fór aðeins með þær pælingar og kannski á ekkert voðalega góðan hátt, afbakaði í rauninni hugmyndina um pólitíska rétthugsun. Hugmyndin þar á bak við, og það er mikilvægt að kunna þetta, er að það er þau sem fara með pólitískt vald, eru í samkeppni um pólitískt vald, geri með sér samkomulag um að misnota ekki minnihlutahópa sér til framdráttar í þessari samkeppni um pólitískt vald. Um það snýst pólitísk rétthugsun. Það hefur hins vegar verið snúið út úr þessu hugtaki, því snúið í andhverfu sína í rauninni, að verið sé að reyna að nota pólitíska rétthugsun til að troða á tjáningarfrelsinu. Það er hins vegar alrangt, bara algjörlega rangt. Það er alger útúrsnúningur. Vissulega hafa einhverjir gengið langt í því að misnota, troða á tjáningarfrelsi annarra. Yfirleitt er það þá í þeim skilningi að verið er að troða á þeim sem benda á það sem misferst hjá þeim sem fara með vald, það er það algengasta, og þá eru þeir að sjálfsögðu mjög á móti því að viðkomandi hafi það tjáningarfrelsi að benda á mistök þeirra. En grunnurinn þar á bak við er eitthvað sem við hljótum öll að vera sammála um að ekkert okkar, sem er í rauninni samkeppni um pólitískt vald, ætti að nota minnihlutahópa eða að geta hallmælt minnihlutahópum eða að nota hatursorðræðu sér til framdráttar. Þetta er grundvöllurinn. Þetta er pólitísk rétthugsun, ekkert annað. Allt annað er afbökun á því sem hefur verið síðan þá.

Þróunin á þessu núna að undanförnu hefur farið út í umræðuna um dómstól götunnar og hvernig ýmsum aðilum hefur misboðið það hvernig vernd minnihlutahópa og vernd þeirra sem verða fyrir ofbeldi hefur misfarist hjá dómstólum, hjá stjórnvöldum og farið í ákveðið opinberunarferli, sneitt fram hjá þessum tækjum og tólum löglegs samfélags, af því að þær stofnanir hafa brugðist. Úr því varð #metoo-hreyfingin. Að sjálfsögðu — ja, að sjálfsögðu, mér finnst slæmt að orða það þannig — verða sömu viðbrögð þar. Þar er farið í uppnefningar á því að þetta sé nú bara dómstóll götunnar. Það er verið að gera lítið úr þeim sem benda á vandamálin af því að vandamálin beinast eða eru hjá þeim sem hafa vald og þau vilji ekki missa það vald. Þá eru viðbrögð þeirra að fara í uppnefningar á því hvað er í raun og veru að gerast, á því hvað er pólitísk rétthugsun, á því hvað er í rauninni tilgangurinn á bak við fyrirbæri eins og #metoo. Dómstóll götunnar er ekkert annað en almenningsálitið, að sjálfsögðu, við leitum til þess. Við leitum til samfélagsins um álit. Spyrjum: Er þetta eitthvað sem við eigum að sætta okkur við? Og svarið verður þá annaðhvort já eða nei. Almenningsálitið verður alltaf þarna. En við þurfum núna í nýju samfélagi samfélagsmiðlanna að læra pínulítið meira um hvernig það virkar. Almenningsálitið virkar öðruvísi núna en það gerði fyrir 20–30 árum síðan og við þurfum að taka tillit til þess og læra aðeins meira á það.