152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins.

517. mál
[20:37]
Horfa

Frsm. velfn. (Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir hönd velferðarnefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, eða EURES-netið.

Tilefni þessa frumvarps er innleiðing reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins 2016/589 frá 13. apríl 2016 um vinnumiðlunarnet Evrópu, aðgang launafólks að þjónustu vegna hreyfanleika og frekari samþættingu vinnumarkaða, og breytingu á reglugerðum (ESB) nr. 492/2011 og (ESB) nr. 1296/2013 en gert er ráð fyrir að efni hennar verði innleitt með reglugerð sem sett verði á grundvelli 20. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006.

Ákvæði um EURES, vinnumiðlun á Evrópska efnahagssvæðinu, hafa fram til þessa verið í reglugerð (ESB) nr. 492/2011, sem veitt hefur verið lagagildi hér á landi með lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 105/2014, sbr. 1. mgr. 1. gr. þeirra laga.

Með 39. gr. reglugerðar (ESB) 2016/589 eru ákvæði 11.–20. gr. og 38. gr. reglugerðar (ESB) nr. 492/2011 um frjálsa för launafólks innan sambandsins felld brott úr þeirri reglugerð og þess í stað tekin upp í reglugerð (ESB) 2016/589. Í ljósi þess er í frumvarpi þessu lagt til að í 1. gr. laganna verði kveðið á um að ákvæði reglugerðar (ESB) nr. 492/2011, með þeim breytingum sem leiðir af 39. gr. reglugerðar (ESB) 2016/589, skuli hafa lagagildi hér á landi.

Í frumvarpinu er jafnframt gert ráð fyrir að fylgiskjal með lögunum, þar sem reglugerð (ESB) nr. 492/2011 um frjálsa för launafólks innan sambandsins er birt í heild sinni, verði fellt brott úr lögunum í samræmi við hefðbundna lagasetningu í tengslum við innleiðingu reglugerða sem leiðir af aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Ekki er því gert ráð fyrir breytingum hvað varðar gildi reglugerðar (ESB) nr. 492/2011 hér á landi, með þeim breytingum sem leiðir af 39. gr. reglugerðar (ESB) 2016/589, heldur er eingöngu um að ræða hefðbundna framsetningu við innleiðingu reglugerða Evrópusambandsins með lögum hér á landi. Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum er því ekki gert ráð fyrir efnislegum breytingum hvað varðar starfsemi EURES, vinnumiðlunar á Evrópska efnahagssvæðinu, hér á landi.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gest frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og nefndarálitið liggur frammi. Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið bendir nefndin á að frumvarpið felur ekki í sér efnisbreytingar á reglum sem gilda um EURES-netið. Annars vegar er um að ræða brottfall tiltekinna ákvæða úr fylgiskjali með lögunum, þar sem reglugerð ESB frá 2011 er birt, þar sem þessi tilteknu ákvæði er nú að finna í reglugerð ESB frá 2016 sem fyrirhugað er að innleiða hér á landi með reglugerð, sbr. framangreint. Hins vegar hefur frumvarpið í för með sér að framangreint fylgiskjal með lögunum er fellt brott og þess í stað birt sem hlekkur sem leiðir beint á vefslóð reglugerðar ESB frá 2011 sem nú er birt í fylgiskjalinu.

Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir álit nefndarinnar rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Líneik Anna Sævarsdóttir, formaður nefndarinnar, Ásmundur Friðriksson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Guðrún Hafsteinsdóttir, Halldóra Mogensen, Jódís Skúladóttir, Oddný G. Harðardóttir og Óli Björn Kárason.

Virðulegi forseti. Við Íslendingar sækjum meira og meira til meginlands Evrópu í viðskiptum og vinnu. Við höfum notið góðs af samvinnu við stjórnvöld og einkaaðila í Evrópu og víðar annars staðar. Það er í takt við okkar alþjóðlegu skuldbindingar, þ.e. EES-samninginn, að stuðla að frjálsri för launafólks innan svæðisins. Heilt yfir hefur EURES-vinnumiðlun fjölgað atvinnutækifærum Íslendinga sem og stuðlað að auknum mannauði hér á landi.

Virðulegi forseti. Ég ítreka að hér er ekki um neinar efnislegar breytingar að ræða milli reglugerða heldur eingöngu tilfærslu einstakra ákvæða milli reglugerða frá 2011–2016. Þar af leiðandi verður engin breyting. Þetta er eingöngu tilfærsla á ákvæðum milli reglugerða.