Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

stéttarfélög og vinnudeilur.

272. mál
[22:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að fá að lesa aðeins upp úr greinargerð með frumvarpinu. Þar stendur:

„Lagt er til að þeir dómarar sem tilnefndir eru af Hæstarétti verði skipaðir ótímabundið líkt og dómarar við almenna dómstóla. Í athugasemdum við IV. kafla með frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um dómstóla kemur meðal annars eftirfarandi fram: „Ástæða þess að dómarar eru skipaðir ótímabundið í embætti er ekki síst sú að gera þeim kleift að komast að sjálfstæðri niðurstöðu í sérhverju máli án þess að þurfa að óttast um starfsöryggi sitt eða stöðu sína að öðru leyti. Við blasir að ef dómari er settur í embætti í skamman tíma getur þetta sjónarmið ekki átt við og sú hætta getur skapast almennt séð að settur dómari láti hugsanlegan framtíðarstarfsferil hafa áhrif á störf sín. Þótt ekkert bendi til að slíkt hafi gerst í raun er mikilvægt fyrir ásýnd dómskerfisins og traust til dómstóla að sjálfstæði dómara sé tryggt með lögum og verði ekki dregið í efa.“ Gert er ráð fyrir að þessi sömu sjónarmið geti átt við um dómara við Félagsdóm og því mikilvægt að þeir dómarar sem ráðherra skipar í Félagsdóm samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar verði skipaðir ótímabundið. Þykir sú breyting jafnframt nauðsynleg í ljósi framangreindra athugasemda GRECO.“

Svo langar mig, fyrst ég hef smátíma, að lesa upp eftirfarandi:

„Í 42. gr. laganna er nú kveðið á um hæfisskilyrði dómara við Félagsdóm en samkvæmt ákvæðinu eru gerðar minni kröfur til dómara við Félagsdóm en gerðar eru til dómara við almenna dómstóla. Í ákvæðinu kemur fram að dómarar við Félagsdóm skuli vera íslenskir ríkisborgarar …“ o.s.frv.

(Forseti hringir.) Í rauninni er lagt til að það sé kveðið á um að í Félagsdómi eigi sæti dómarar sem eru skipaðir til þriggja ára í senn — og ég er runnin út á tíma.