Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

stéttarfélög og vinnudeilur.

272. mál
[22:05]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Það er gríðarlega mikilvægt hvernig staðið er að skipun dómstóla á Íslandi. Við erum margbrennd, íslenskur almenningur, íslensk þjóð, af því að hafa ekki staðið faglega að málum og ekki síst þess vegna þurfum við að hlusta þegar við fáum leiðbeiningar frá þar til bærum aðilum um hvernig best er að standa að málum. Hvers vegna? Jú, af því að í fyrsta lagi byggir réttarríkið okkar á trausti á lykilstofnunum, sem m.a. eru dómstólarnir, lykilstofnunum sem m.a. eru Alþingi, og svo framkvæmdarvaldinu. Þegar Alþingi tekur á móti ábendingum frá alþjóðlegum stofnunum sem við erum aðilar að, sem er ætlað að benda okkur á það sem betur má fara í baráttunni gegn spillingu — sem er auðvitað mjög merkingarþrungið orð en ekki að ástæðulausu — þá er okkur skylt að taka mark á slíkum ábendingum.

Tilurð þess frumvarps sem við fjöllum um hér í dag er ábending frá GRECO, sem er nefnd þjóðríkja Evrópuráðs gegn spillingu, sem benti á að það fyrirkomulag væri óheppilegt að Hæstiréttur væri að tilnefna og/eða skipa í Félagsdóm og jafnvel fólk sem ekki uppfyllti ákveðin hæfisskilyrði til setu í dómi. Það er farið af stað og tekin ákvörðun um að breyta þessum lögum, og er það vel, og skipaður hópur mikilvægra einstaklinga. Það er félagsmálaráðuneytið sem hefst handa við að vinna þessa nýju löggjöf og fær til þess aðila vinnumarkaðarins — eðlilega, þeir eiga jú aðild að Félagsdómi og þangað fara mál er höfðuð eru af vinnumarkaðnum — en í þeim hópi virðast ekki hafa átt sæti neinir sérfræðingar í réttarfari eða verið leitað til þeirra sem best þekkja til varðandi þær ábendingar sem komu frá GRECO. Mér þykir það býsna sérstakt að ekki hafi verið gerð nein tilraun til þess að passa einhvern veginn upp á þetta í nefndinni, í vinnunni við frumvarpið í byrjun, að þetta skuli, að því er virðist, hafa verið algerlega á forsendum vinnumarkaðarins, sem er auðvitað allt í lagi að einhverju leyti en það verður að passa upp á réttarfarið, það verður að passa upp á rammann í kringum þetta. Það er mjög gott að verið sé að passa upp á að þeir sem taka sæti uppfylli skilyrði þess að geta tekið sæti í dómi, sem var ábending frá GRECO, en það virðist vera sem nefndin hafi örlítið misskilið að gerð hafi verið sú krafa að um væri að ræða embættisdómara. Það var alls ekki svo. Það var engin krafa um að þetta væru starfandi dómarar. En nefndin ákveður einhvern veginn að hafa þetta þannig að þessir þrír sem tilnefndir eru af Hæstarétti verði að vera starfandi dómarar.

Gott og vel, laganefnd Lögmannafélags Íslands gerði athugasemd við þetta að því leyti að það útilokaði að miklu leyti fagfólk í vinnurétti frá því að geta hreinlega sótt um, af því að ekki er gert ráð fyrir neinu umsóknarferli eins og þegar verið er að skipa í aðra dóma hér á landi. Þetta er tilnefningarferli þar sem Hæstiréttur tekur ákvörðun um að handvelja aðila í dóminn. Ekki er gerð krafa um auglýsingu, ekki er gerð krafa um að fólk sæki um og það sé einhver hæfisnefnd. Nei, það er Hæstiréttur sem á að handvelja í dóminn og þeir dómarar sem taka sæti, sem tilnefndir eru af Hæstarétti og skipaðir af ráðherra, eru skipaðir ótímabundið. Og af hverju er það? Jú, vegna þess að í réttarfari er talið mjög mikilvægt að dómarar séu skipaðir ótímabundið. Af hverju er það? Jú, það er vegna þess að það er talið auka sjálfstæði dómara að þeir séu skipaðir ótímabundið, að þá eigi þeir ekki framtíð sína undir þeim sem skipar þá. Þannig er reynt að tryggja sjálfstæði þeirra, óhlutdrægni og gagnsæi. En einhverra hluta vegna er núna verið að taka ákvörðun um að tveir dómarar af fimm séu skipaðir tímabundið, bara til þriggja ára, og að það skuli vera þeir tveir dómarar sem eru tilnefndir af aðilum vinnumarkaðarins. Laganefnd Lögmannafélagsins bendir á að þarna kunni að myndast ákveðið ójafnvægi, að augljós hætta sé á því að vægi sjónarmiða hinna síðarnefndu, þ.e. þeirra sem koma nýir reglulega inn í réttinn á þriggja ára fresti, verði minna en hinna sem eru skipaðir ótímabundið, svo að ég vitni beint í umsögn laganefndar Lögmannafélagsins. Þetta er fullkomlega eðlileg ábending. Það myndast ójafnvægi í réttinum. Það er alveg klárt. Maður veltir fyrir sér varðandi ábendingu laganefndar Lögmannafélagsins að það mætti nota sama fyrirkomulag og var sett í dómstólalögin er varðar skipan í endurupptökudómstól. Þar er bara ákveðið að allir séu skipaðir í fimm ár í senn. Auðvitað er þarna komið það sjónarmið að þá verðir þú ekki alveg sjálfstæður af því að þú getir lent í því að fá ekki endurskipun. Það er hægt að koma í veg fyrir þann ótta með því að takmarka möguleika á endurskipun — þ.e. þú getur setið í fimm ár og það má bara endurskipa þig einu sinni eða tvisvar þannig að þú getur mest setið í tíu ár í dómnum eða 15 ár ef því er að skipta, það er bara eitthvert mat sem þarf að fara fram — en að það sitji allir við sama borð. Þarna er líka hægt að hafa þetta róterandi, þ.e. að það séu ekki allir fimm sem koma nýir inn í réttinn. Auðvitað er það þannig með Félagsdóm að þetta er ekki stöðug vinna allt árið, þetta er tarnavinna. Það sama er með endurupptökudómstól, hann er kallaður saman bara þegar þarf, þegar það koma inn mál. Ég sé ekki af hverju ekki er farin þessi leið.

Mér finnst líka óheppilegt að hv. velferðarnefnd, sem fékk mjög skýrar ábendingar á fyrra kjörtímabili þegar þetta mál var til umfjöllunar, skyldi ekkert gera með það að kalla til fulltrúa GRECO, að ekki skuli hafa verið leitað eftir umsögn þeirrar nefndar um hvort hún telji að þessi lagabreyting sé með fullnægjandi hætti, að hún uppfylli og komi til móts við þær ábendingar sem koma frá þeirri mikilvægu nefnd. Ég held að það hefði verið til bóta ef svo hefði verið. Þá værum við ekki með það yfir höfði okkar að mögulega komi önnur skýrsla frá GRECO á næsta ári eða eftir tvö ár sem bendi okkur á að við höfum ekki gert það með fullnægjandi hætti. Það er ekki rétt að verið sé að gera þetta með þessum hætti í Danmörku. Hæstiréttur er ekki að tilnefna þrjá eða sjö, eða hvað þeir eru margir, í Félagsdóm þar í landi. Það er mjög fjölmennur dómur. Það er ekki þannig. Horfið hefur verið frá því fyrirkomulagi að því er ég best sé á gögnum sem liggja fyrir í málinu. Það virðist vera svo. Þá er auðvitað líka spurning með hæfisdómara. Hvers vegna verður viðkomandi dómari að vera embættisdómari? Reynsla getur jú auðvitað verið góð og ég er ekki að segja að það sé einhver vanhæfni þar á milli en það má velta fyrir sér hvort ekki sé óheppilegt að sami dómstóll og tilnefnir þrjá í Félagsdóm sé svo að taka við mögulegum kærum aðila að dómsmáli og úrskurða um kærur seinna, að það sé sami dómstóll og hann tilnefnir í. Ég held að við hljótum að vera sammála um að það er óheppilegt. Laganefnd Lögmannafélags Íslands tekur einmitt undir þetta og segir, með leyfi forseta:

„Öll afskipti Hæstaréttar, bein eða óbein, af skipan dómara við Félagsdóm, virðast þannig til þess fallin að draga úr ásýnd um sjálfstæði Félagsdóms gagnvart Hæstarétti. Fyrirkomulagið við skipan dómara við Félagsdóm virðist þannig vera andstætt markmiði frumvarpsins um að tryggja sjálfstæði dómstólsins.“

Mér finnst skrýtið að ekkert sé gert með þessa umsögn og ekki gerð nein tilraun til þess, ef ekki er vilji til að hlusta á það sem laganefnd Lögmannafélagsins segir, að leita þá dýpra í raðir sérfræðinga í réttarfari, t.d. úr akademíunni. Þeir eru fjölmargir. Ef nefndarálitið er lesið þá kemur í ljós að svo var ekki og ég fæ ekki betur séð en að svörin sem nefndarálitið ber með sér séu á þá leið að af því að þetta hafi verið samkomulag í nefndinni milli aðila vinnumarkaðarins og fulltrúa ráðuneytisins og hluti af einhverju stærra samhengi þá megi ekki hrófla við því að dómurinn kunni að verða skipaður með þeim hætti að hann sé hvorki sjálfstæður né þar ríki gagnsæi við skipan, því að ekki er farið í auglýsingar heldur bara tilnefningar af handahófi, né sé gætt óhlutdrægni. Þá fellur málið í rauninni um sjálft sig. Það er stundum þannig að hér í þessum þingsal er varað við hlutum og varað við ákveðinni leið og svo kemur stóri dómur eftir á.

Við erum í þeirri stöðu núna að Félag íslenskra náttúrufræðinga er búið að senda mál er varðar skipan Félagsdóms til Strassborgar, til Mannréttindadómstóls Evrópu. Þar er gerð athugasemd við það að Hæstiréttur hafi svona mikið um það að segja að skipa. Hv. þm. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, framsögumaður nefndarálits hér í kvöld, sagði að algerlega væri verið að koma til móts við þetta með því að Hæstiréttur væri bara tilnefna en ráðherra væri að skipa. En það er ekkert í lögunum sem bendir til þess að ráðherra hafi nokkra einustu heimild til að víkja frá tilnefningum Hæstaréttar, það er hvergi sveigjanleiki fyrir því, eða frá tilnefningum aðila vinnumarkaðarins. Það er hvergi gefinn kostur á mati eða neinu slíku, ég sé ekkert slíkt í frumvarpinu, að ráðherra sé á einhvern hátt gefinn einhver kostur á að framkvæma sjálfstætt mat, að auglýsa eða neitt. Þetta er því í rauninni skipun á þeim sem Hæstiréttur tilnefnir og aðilar vinnumarkaðarins tilnefna. Vissulega er það ekki Hæstiréttur sem skipar en Hæstiréttur de facto skipar því að hann tilnefnir og ráðherra skipar. Þá erum við komin á skjön við það sem GRECO er að benda okkur á. Nefndin benti á það í annarri skýrslu sinni og aftur í fjórðu, af því að þá var ekki búið að gera neitt, að þetta væri fyrirkomulag sem væri ekki til þess fallið að gæta að sjálfstæði, óhlutdrægni og gagnsæi við skipan dómsins.

Aðeins aftur varðandi þetta með embættisdómara. Ef skýrslurnar eru lesnar sést að það var ekki ætlun GRECO að embættisdómarar væru skipaðir í dóminn. Talað er um að að tryggja þyrfti að dómarar uppfylli sömu hæfisskilyrði og embættisdómarar en ekki að þetta séu embættisdómarar. Hægt er að finna þetta á mörgum stöðum í rauninni og vel ígrundað og má lesa um nákvæmlega þetta atriði í umsögn laganefndar Lögmannafélagsins. JS lögmannsstofa sendi inn umsögn aftur öðru sinni og vísar þar í hversu óheppilegt það er að Hæstiréttur tilnefni þrjá dómara í Félagsdóm þar sem skv. 67. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur megi kæra tiltekna dóma og úrskurði Félagsdóms til Hæstaréttar og er það upp talið nákvæmlega í lagaákvæðinu hvaða dómar og úrskurðir það eru og er Hæstarétti þannig ætlað samkvæmt frumvarpinu að endurskoða tiltekna dóma og úrskurði Félagsdóms, sama dómstóls og dómstóllinn tók þátt í að skipa og ekki bara skipa heldur tilnefna meiri hluta dóms og tilnefna forseta dóms og varaforseta. Vægið á þeim dómurum í Félagsdómi sem koma frá Hæstarétti er því auðvitað gríðarlega mikið á kostnað hinna sem tilnefndir eru af aðilum vinnumarkaðarins, út af þessu sem ég var að tala um varðandi það að vera ótímabundið tilnefndir eða skipaðir í Félagsdóm í stað hinna sem eru skipaðir aðeins þrjú ár og vera með bæði forseta og varaforseta. Vægið verður þá auðvitað óneitanlega töluvert, ekki síður vegna þess að þar er um að ræða þegar skipaða embættisdómara.

Það kemur fram í umsögn Samtaka atvinnulífsins að nefnd ráðherra sem samdi drög að frumvarpinu hafi verið skipuð aðilum vinnumarkaðarins, þ.e. þeim aðilum sem leggja ágreining fyrir Félagsdóm vegna túlkunar kjarasamninga og brot á vinnulöggjöf, og að það hafi verið samhljóða niðurstaða nefndarmanna að leggja til að þeir þrír dómarar sem tilnefndir eru af Hæstarétti komi úr röðum dómara sem þegar hafa fengið skipun dómara við Landsrétt eða héraðsdóm og að nefndin hafi rætt aðra möguleika, svo sem hæfisnefnd, en talið þá leið sem frumvarpið gerir ráð fyrir besta til að viðhalda trausti aðila vinnumarkaðarins til Félagsdóms. Ég skil ekki alveg þessi rök, mér finnst þau í rauninni hljóma þannig að af því að búið var að gera samkomulag um eitthvað í einhverri nefnd þá sé best að hrófla ekki við því af því að þá gæti eitthvað annað farið af stað. Ég heyrði líka haft eftir nefndarmanni að það sé eiginlega bara best að taka ekki við umsögnum og fara ekki eftir ábendingum fagaðila og sérfræðinga í réttarfari (Forseti hringir.) af því að þá væri verið að hrófla við einhverju samkomulagi sem væri gert utan húss. Ég geld varhug við því (Forseti hringir.) hugarfari og vildi árétta öll þessi atriði sem ég hef farið yfir hér í ræðu minni.