Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

stéttarfélög og vinnudeilur.

272. mál
[23:29]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttir fyrir andsvarið. Það er vissulega rétt að þetta voru frekar upplýsingar en beinar spurningar. Það var áhugavert að heyra þetta með réttarfarsnefndina, ég hafði ekki heyrt það áður. En ég ætla að leyfa mér að halda því fram hér að það sé ekki endilega réttur skilningur að athugasemdir GRECO hafi beinlínis krafist þessarar breytingar um auknar kröfur til dómaranna sem eru tilnefndir af Hæstarétti. Það stendur ekki þar, er ekki í þeim, það eru þá einhver gögn sem ég hef ekki aðgang að hér og þar með ekki þingið. Það er einfaldlega ekki þar. Það er viðbótarkrafa eða viðbótarákvæði sem mig vantar rökstuðninginn fyrir. Svo er kannski hitt, úr því að hv. þingmaður fór yfir stöðunni eins og hún er núna, að ég held að það velkist enginn í vafa um að þetta mál er í heild sinni að færa fyrirkomulagið að einhverju leyti til betri vegar og ég ætla að leyfa mér að segja að skárra væri það nú. Það er einfaldlega til komið til að bregðast við athugasemdum GRECO. En það sem við erum að tala um hér er að það er að ákveðnu leyti gengið lengra án þess að það sé rökstutt og svo kannski fyrst og fremst þetta sem truflar mig: Við erum að fjalla um dómstól og ég fæ það á tilfinninguna og les það út úr þessu að athugasemdir lögfræðinga við málið hafi einhvern veginn verið settar — ég ætla ekki segja skör lægra en þeim er ekki mætt eins mikið og athugasemdum aðila vinnumarkaðarins. Það er rökstutt í nefndarálitinu með því að það séu jú þeir sem noti dómstólinn. En mér finnst það lítið og léttvægt miðað við það að við séum að fylgja lögum í hinu ýtrasta. Það er raunverulega að því sem athugasemdir mínar lúta.