Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

stéttarfélög og vinnudeilur.

272. mál
[23:33]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst það mjög gott að hv. þingmaður og framsögumaður málsins taki þann pól í hæðina af því að það gefur þá tækifæri að taka aukaumræðu um málið. Þetta hljómar eins og hártogun en hún er mikilvæg, t.d. þetta með auknar kröfur til þeirra dómara sem Hæstiréttur tilnefnir. Eitt er að hafa til að bera þá hæfni að viðkomandi sé hæfur til að starfa við Landsrétt eða héraðsdóm, hitt er síðan að gera kröfu um að gegna störfum þar. Það er ákveðinn munur þar sem skapar misræmi. Ég held að það sé mikilvægt að taka annan umgang þótt stuttur sé á þessu máli, þó ekki væri nema til þess að tryggja í nefndaráliti að umsögnum, þær eru ekki nema fjórar, sé gert svipað hátt undir höfði þegar kemur að rökstuðningi og viðbrögðum við athugasemdum sem þar eru. Þetta mál er, eins og ég sagði áðan, að ákveðnu leyti tvíþætt. (Forseti hringir.) Þetta er verkefni sem Félagsdómur á að sinna og þar kemur til kasta atvinnulífsins og síðan eru það þau skilyrði sem þessi dómur, eins og aðrir dómstólar, þarf að uppfylla og það er lagalega hliðin.