154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

framkvæmd EES-samningsins.

581. mál
[13:55]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir sína gagnlegu yfirferð. Ég er nú sennilega sá eini á þessu þingi núna sem vann á þeim tíma ötullega að því um árabil að koma okkur inn í EES. Ég gekk til liðs við örflokk sem einn flokka á Íslandi vildi ganga inn í Evrópska efnahagssvæðið, Alþýðuflokkinn sáluga. Ég var lengi vel mjög stoltur af því að hafa átt þátt í því að koma þeim flokki til valda og berjast fyrir þessu sem varð. Í þá liðssveit bættist síðan annar maður sem var til ráðuneytis, ungur lögfræðingur sem gegnir forystu ESA í dag. Ég lít á hann sem bandamann okkar og gamlan kollega sem myndi örugglega vera til ráðuneytis um bestu leiðir áfram í öllum málum.

En bókun 35 fyrir 30 árum gekk ekki eftir vegna þess að það var of erfitt fyrir hina nýfrjálsu þjóð sem var einungis búin að eiga sitt sjálfstæða frelsi og sín eigin lög í örfáa áratugi. Og það stendur í mönnum enn þann dag í dag vegna þess að það er auðvitað í hugum margra erfitt og þungbært að afsala sér þeim rétti að íslensk lög skuli gilda í öllum málum. Þannig að við skulum ekkert vera hissa á því að þetta standi í mönnum. Við skulum líka hafa það hugfast, þó að það sé ekki geðfelld tilhugsun, að kannski var það fjórfrelsið nýfengna á þeim tíma sem gerði hið stórkostlega bankahrun mögulegt hér sem leiddi tugþúsundir manna út á götuna, út af heimilum sínum og kallaði þúsundir fyrir framan Alþingishúsið. Nú spyr ég ráðherrann: Teldi hann að við gætum verið að sinna okkar hagsmunagæslu í Brussel með betri hætti í ljósi þess að tilskipanir eru nú 650 á ári (Forseti hringir.) en okkar megin frá er harla lítið af einbeittum vilja til breytinga sem hlustað hefur verið á?