154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

framkvæmd EES-samningsins.

581. mál
[13:57]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í tengslum við bankahrunið og EES þá er í mínum huga alveg ljóst að sú staðreynd að peningar voru ókeypis og þeir voru lánaðir til fjármálafyrirtækja eins og þau hefðu lánstraust sem ríkissjóður hefur ekki enn þá náð fram á þennan dag eftir hrunið var ástæðan fyrir hruninu; að þúsundir milljarða voru lánaðir til fjármálafyrirtækja eins og þau myndu ávallt undir öllum kringumstæðum geta greitt til baka bara vegna þess að ríkissjóður stóð sterkt. Það voru rosaleg mistök sem fjármálamarkaðirnir gerðu á sínum tíma. (Gripið fram í.) Vissulega í skjóli regluverks sem opnaði fyrir frelsi en þau mistök eru í mínum huga ekki rök fyrir því að skerða frelsið, enda hefur evrópska bankaregluverkið verið endurskrifað án þess að frelsið hafi verið tekið til þess að starfa þvert á landamæri.

En hvernig gætum við betur sinnt hagsmunagæslunni? Ég er þeirrar skoðunar að flokkarnir á þinginu ættu oftar að rækta samband við flokka á Evrópuþinginu. Þá er ég að horfa til þess að það er í raun og veru hið pólitíska svið þessa samstarfs sem liggur í Evrópuþinginu á meðan stjórnkerfi okkar Íslendinga er miklu meira að tala beint við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Það býr til hættuna á því að þegar mál komast loks á dagskrá hér á þinginu sé búið að eiga sér stað margra ára samtal milli íslenska stjórnkerfisins, framkvæmdarvaldsins, og hins eiginlega framkvæmdarvalds í Brussel án þess að stjórnmálamenn á Íslandi hafi gefið sér nægan tíma eða haft ástæðu til þess að staldra við mál sem voru í pípunum. (Forseti hringir.) Til þess getur þurft að auka samtalið við Evrópuþingið.