154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

framkvæmd EES-samningsins.

581. mál
[14:00]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég tel rétt að halda til haga bæði kostum og göllum svona sambands, rétt eins og maður myndi gera í eigin hjónabandi. Ég hef stundum líkt þessu við hjónaband sem er orðið 30 ára gamalt. Mér finnst stundum eins og enginn hafi séð fyrir hversu mikill vaxandi fjöldi nýrra tilskipana yrði frá ári til árs. Það er kostnaðurinn af þeim sem ég hef stundum velt fyrir mér. Við, íslenska þingið, erum með 80 mál á ári en frá Evrópuþinginu koma 650 mál. Ég vil upplýsa hæstv. ráðherra um að ég ætla að óska eftir fjárhagslegum ávinningi af starfinu. Ég hef þegar óskað eftir kostnaði og gjöldum en ég ætla að óska eftir þeim fjárhagslega ávinningi sem ég efast ekki um að sé auðmælanlegur eftir einhverja vinnu. En þá vil ég bara biðja ráðherrann um að gera grein fyrir því enn og aftur hvort við gætum öðlast aukinn stöðugleika í gengismálum með þessari samvinnu okkar við EES, með því hugsanlega að tengja krónuna við evru (Forseti hringir.) sem myndi fyrirbyggja þær tugmilljarða vaxtaálögur sem almenningur hefur orðið fyrir á undanförnum misserum.