131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Umræðuefni í athugasemdum um störf þingsins.

[10:58]

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í 2. mgr. 55. gr. þingskapa stendur, með leyfi forseta:

„Jafnan er heimilt að gera stutta athugasemd um atkvæðagreiðslu, um fundarstjórn forseta og til þess að bera af sér sakir.“

Ég hélt að það gengi fram fyrir aðrar umræður en ég fellst að sjálfsögðu á ósk frú forseta að umræður um störf þingsins megi halda áfram þar til þeim lýkur, eftir 20 mínútur, en ég bað um orðið í þeim miðjum.

Ég vil geta um eftirfarandi: Í umræðunni hafa menn rætt eitt tiltekið mál sem búið er að ræða í utandagskrárumræðu. Hér hefur sem sagt orðið utandagskrárumræða um það mál, framhald og endurtekning. Auk þess hefur verið beint fyrirspurnum til hæstv. forsætisráðherra. Við erum með sérstaka fyrirspurnatíma, bæði fyrir óundirbúnar og undirbúnar fyrirspurnir, fyrir utan náttúrlega skriflegar fyrirspurnir. Auk þess hefur verið mælt fyrir einu ákveðnu máli sem er til umræðu í þinginu.

Frú forseti. Mér finnst þetta ekki vera fundarstjórn í samræmi við þingsköp Alþingis og ég vil ekki að málin þróist þannig að við séum með utandagskrárumræður undir margs konar formerkjum og komin með fyrirspurnir til ráðherra undir margs konar formerkjum og farin að ræða einstök þingmál sem fyrir liggja frumvörp um í hinu háa Alþingi undir þessum lið. Til þess höfum við 1., 2. og 3. umr.